Tónlist

Iceland Airwaves í útrás

Íslendingar á London Airwaves. Bjarni Knútsson öryggisvörður, Sara María Eyþórsdóttir og Þorsteinn Stephensen stóðu vaktina í Rough Trade-plötubúðinni á Brick Lane. Þar fór miðasala fram fyrir London Airwaves um síðustu helgi.
Íslendingar á London Airwaves. Bjarni Knútsson öryggisvörður, Sara María Eyþórsdóttir og Þorsteinn Stephensen stóðu vaktina í Rough Trade-plötubúðinni á Brick Lane. Þar fór miðasala fram fyrir London Airwaves um síðustu helgi.

Góður rómur var gerður að London Airwaves-hátíðinni sem haldin var um síðustu helgi. Þorsteinn Stephensen, eigandi Hr. Örlygs, segir að hátíðin verði haldin aftur á næsta ári og verið sé að skoða hvort Airwaves verði haldin í fleiri löndum í framtíðinni.

Alls voru átta skemmtistaðir í Shoreditch-hverfinu í London lagðir undir fyrstu London Air­waves-hátíðina um síðustu helgi. Fjöldi hljómsveita og plötusnúða kom fram, allt listamenn sem teljast ungir og upprennandi. Nokkrar hljómsveitanna á London Airwaves eru væntanlegar á Iceland Airwaves í næsta mánuði, til að mynda Familjen, Pnau og Young Knives. Íslensku hljómsveitirnar Steed Lord og FM Belfast komu fram og vöktu talsverða athygli. Fjöldi Íslendinga sótti hátíðina heim og lét vel í sér heyra þegar Íslendingarnir stigu á svið.





Allt púðrið í eina tunnu
Steed Lord Svala Björgvins og strákarnir voru í góðu stuði á hátíðinni og vöktu talsverða lukku.

Þorsteinn Stephensen, eigandi Hr. Örlygs, sá um framkvæmd hátíðarinnar ásamt fjölda Íslendinga. Þar á meðal voru Egill Tómas­son, Sara María Eyþórsdóttir, Róbert Aron Magnússon og Bjarni Knútsson. Þorsteinn sagði í samtali við Fréttablaðið að hann væri nokkuð ánægður með hvernig hátíðin í London heppnaðist. „Ég hefði viljað sjá aðeins meiri sölu en annars er ég mjög ánægður. Við fengum mikla um­fjöllun í fjölmiðlum og viðbrögðin voru alls staðar góð," segir hann. Um 2.300 gestir voru á hátíðinni auk rúmlega tvö hundruð blaðamanna. Þorsteinn er spurður hvort Hr. Örlygur hafi hagnast á hátíðinni í London. „Nei, en við vorum mjög nálægt núllinu. Við erum sjálfsagt að borga eitthvað með þessu. Við höfum áður haldið kynningar­tónleika fyrir Airwaves í Skandinavíu og í London og höfum verið að borga með þeim. Nú settum við bara allt púðrið í eina tunnu og það kemur svipað út. Þetta er bara markaðsátak og þau kosta alltaf sitt."

Aðspurður viðurkennir Þorsteinn að ýmsir byrjunarörðugleikar hafi komið upp við framkvæmd London Airwaves. Þeir hafi þó allir reynst smávægilegir. „Við sáum eiginlega bara hversu allt tæknifólk og „crew" er gott á Íslandi. Þarna vorum við að vinna í fyrsta skipti með fólki og það gekk misvel." Hann segir að það hafi verið rétt ákvörðun að láta hátíðina aðeins standa í eitt kvöld, öfugt við þau þrjú eða fjögur eins og tíðkast hér á landi.

Útrásin heldur áfram
„Ég get staðfest að hátíðin verður haldin aftur í London næsta haust. Hvort það verður aftur á nákvæmlega sama stað á hins vegar eftir að koma í ljós," segir Þorsteinn sem segir að hátíðin í London hafi styrkt Airwaves-vörumerkið mikið. Það liggur því beint við að spyrja hann hvort ætlunin sé að halda áfram með útrásina, hvort Airwaves verði haldin í fleiri löndum á næstunni. „Við erum að skoða fleiri lönd. Ég vil ekki vera með neinar yfirlýsingar en við erum að velta þessu fyrir okkur."

FM Belfast Þriggja manna útgáfa af hljómsveitinni spilaði á litlum tónleikastað í kjallara. Sveitin náði þó upp góðri stemningu meðal gesta, sem margir voru Íslendingar.
Nú eru tæpar þrjár vikur í Iceland Airwaves-hátíðina og segir Þorsteinn að undirbúningur gangi vel. „Við sáum nokkur af þessum böndum úti í London og þau komu gríðarlega á óvart. Þetta verður sterk hátíð, enda hefur salan gengið vel. Við búumst við að það verði uppselt eins og hingað til."

[email protected]






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.