Skoðun

Best geymda leyndarmálið

Ríkisstjórn Íslands tekur ekki sameiginlegar ákvarðanir. Hún er ekki fjölskipað stjórnvald, eins og það heitir á lagamáli. Ég er ekki frá því að þessi staðreynd sé eitt best geymda leyndarmál íslenskrar stjórnskipunar. Þetta þýðir að hver ráðherra ber sín mál – oftast án undanfarandi kynningar – inn á fund ríkisstjórnar og fær þau samþykkt umorðalaust. Á þessu eru undantekningar, t.d. getur annar ráðherra beitt neitunarvaldi, eða mál eru af þeirri stærð að formenn stjórnarflokkanna þurfi að véla um þau. Hefðin kennir að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands skipti sér sem minnst af ábyrgðarsviði kollega sinna, nema þau skarist með einhverjum hætti. Ég fæ ekki séð að það hafi breyst mikið á liðnum mánuðum.

Hrunið afhjúpaði margs konar veikleika í efnahags- og stjórnmálalífi landsmanna. Stjórnarráðið er þar engin undantekning. Innbyggðir veikleikar opinberrar stjórnsýslu eru margir. Í kringum hvert ráðuneyti hafa í gegnum tíðina risið ókleifir varnargarðar og náin samvinna þvert á ráðuneyti verið að sama skapi seinleg og erfið. Það kom berlega í ljós þegar mest á reyndi haustið 2008.

Ég er þeirrar skoðunar að nú sé rétti tíminn til að leggja yfirvegað mat á það hvort ríkisstjórn Íslands skuli verða fjölskipað stjórnvald, eins og sveitarstjórnir þessa lands. Af sjálfu leiðir að vinnubrögð og upplýsingagjöf batnar við ríkisstjórnarborðið. Þá bera allir ráðherrar í raun sameiginlega ábyrgð á ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og eiga að vera upplýstir um þýðingu þeirra. Þannig er það víða í öðrum löndum og ekki að ástæðulausu. Það er því fagnaðarefni að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hafi ýtt úr vör vinnu nefndar sem mun m.a. skoða verkaskiptingu og vinnulag innan stjórnarráðsins og hvort gera eigi róttækar breytingar á opinberri stjórnsýslu. Ekki er vanþörf á.

Höfundur er þingmaður.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×