Skoðun

Við verðum að forgangsraða

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir skrifar um borgarmál

Að ferðast um kyrrláta höfuðborgina á aðfangadagskvöld er alltaf sérstakt en sjaldan hefur það verið jafn áhrifamikið og í ár. Jólaljós í gluggum heimilanna voru hljóðir málsvarar um hvað flestir leggja áheslu á þegar erfiðleikar steðja að. Án efa hefur það verið mörgum erfitt að halda hátíð, um það ber fjöldi umsókna um aðstoð til hjálparsamtaka vitni. Margar fjölskyldur hafa líka þurft að forgangsraða upp á nýtt og hugsa um hvað væri nauðsynlegt til að halda jól og hverju mætti sleppa að sinni. Oftar en ekki hefur það verið erfitt val.

Í þessari efnahagslegu ótíð verða stjórnvöld í Reykjavík, líkt og fjölskyldurnar, að forgangsraða hjá sér. Í slíku vandasömu verki er mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt lóð á vogarskálarnar til þess að hægt sé komast upp úr hjólförum tortryggni og vantrausts og skapa sátt í samfélaginu um þær aðgerðir sem grípa þarf til. Íslendingar hafa fyrir löngu komið sér saman um að vilja vera samfélag sem styður við þá sem það þurfa. Það er gott til þess að vita að enginn vilji er til þess breyta því þrátt fyrir yfirstandandi erfiðleika. Ekki er síður mikilvægt að allir leggist á eitt við að styrkja stoðir samfélagsins með því að grafa ekki vísvitandi undan trausti og gæta sanngirnis gagnvart hvert öðru.

Stjórnmál morgundagsins muna snúast fyrst og fremst um vinnubrögð við að skapa traust og í sameiginlegum sáttatón séu teknar ákvarðanir um hvað skiptir okkur mestu máli. Það verður erfitt verkefni en eitt það mikilvægasta. Margir kviðu fyrir því ári sem nú er að kveðja og það hefur verið mörgum erfitt. Árið getur þó líka staðið sem áminning um hverju við getum áorkað þegar á reynir og haft það að leiðarljósi í komandi verkefnum.

Höfundur er þátttakandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×