Skoðun

Svandís Svavarsdóttir: Í þágu náttúru og komandi kynslóða

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Ár er liðið frá því ég tók við embætti umhverfisráðherra á miklum umrótstímum. Á fyrstu mánuðum í embætti var ég oft spurð hvort umhverfis- og náttúruverndarmál væru ekki lúxusmál sem þjóðin hefði ekki efni á að sinna á samdráttartímum. Ég fæ ekki slíka spurningu lengur enda flestir sem gera sér orðið grein fyrir mikilvægi þess að hagsmunum náttúru og umhverfis sé haldið á lofti.

Sagan hefur kennt okkur að það er sennilega aldrei mikilvægara en á samdráttartímum að huga vel að umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum og standa vörð um þær auðlindir sem við höfum fengið að láni hjá komandi kynslóðum. Umræðan um aukinn hagvöxt snýr nær undantekningarlaust að náttúruauðlindum eins og vatni, fiski, orku, loftgæðum o.s.frv. Nýting þessara auðlinda verður að vera á forsendum sjálfbærrar þróunar þar sem samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg áhrif eru metin að jöfnu. Við þekkjum afleiðinguna af því að horfa eingöngu á efnahagslegu áhrifin af nýtingu auðlinda og þeirri leið sem farin hefur verið til að halda uppi hagvexti. Sú aðferðafræði hefur ekki verið farsæl fyrir þjóðina og hún hefur sýnt okkur að við þurfum fleiri mælikvarða en hagvöxt til að mæla heilbrigði samfélags.

Á þessu fyrsta starfsári mínu sem umhverfisráðherra hef ég lagt áherslu á að staða náttúruverndar innan stjórnarráðsins verði styrkt. Hafin eru fjölmörg verkefni til að styrkja stöðu náttúrunnar og ber þar hæst víðtæk endurskoðun á lagaumhverfi náttúruverndar. Þá hef ég einnig lagt sérstaka áherslu á líffræðilega fjölbreytni, endurheimt votlendis, framkvæmd náttúruverndaráætlunar, loftslagsmarkmið og að flýta innleiðingu Árósasamningsins. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þau mörgu verkefni sem nú er unnið að í umhverfisráðuneytinu.

Það er eðli embættis umhverfisráðherra að tala máli náttúrunnar og tryggja að hún fái notið vafans við ákvarðanatöku. Ég hef forðast að láta undan þrýstingi hagsmunaaðila, staldrað við, spurt spurninga og aflað frekari gagna með það að leiðarljósi að verja hagsmuni heildarinnar, komandi kynslóða og náttúrunnar. Verkefni í þágu umhverfis- og náttúruverndar eru málefni hvers dags, unnin í þágu framtíðar og komandi kynslóða. Möguleikar barnanna okkar og barnabarna velta á því að málaflokknum sé sinnt af kostgæfni og alvöru.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×