Skoðun

Ráðist að konum og á konur

Vigdís Hauksdóttir skrifar
Ísland er aðili að alþjóðasáttmálum er varða heilbrigði og lögbundinn rétt til heilbrigðisþjónustu. Að auki er þessi réttur tryggður í 76. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir: „Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika." Þann 21. okt. sl. hélt dr. Brigit Toebes, lagaprófessor og virtur fræðimaður á sviði heilbrigðisréttar og alþjóðlegrar mannréttindaverndar, fyrirlestur í HR. Taldi hún að fyrirhugaður niðurskurður í heilbrigðiskerfinu yrði að taka mið af mannréttindum.

Á dögunum var dreift á Alþingi svari frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, um fækkun starfa á heilbrigðisstofnunum í niðurskurði fjárlaga 2011. Í svarinu kemur fram í töflu 1 að áætluð fækkun starfsmanna á landinu öllu verði 635 í 445 stöðugildum. Hlutfall kvenna af fjölda starfsmanna á heilbrigðisstofnunum er að meðaltali 82%. Því er augljóst að þessi tiltekna aðgerð ríkisstjórnarinnar í fjárlagagerðinni er bein árás á konur og atvinnutækifæri þeirra á landinu öllu. Hver hefði trúað því á heilaga Jóhönnu.

Alvarlegi hluti niðurskurðarins sem snýr að konum er þó þessi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu á að fækka um 96 starfsmenn sem nemur 69 starfsmönnum á St. Jósefsspítala. Það er bein árás að konum, því spítalinn hefur sérhæft sig í grindarbotnsaðgerðum kvenna. Eru þær margvíslegar og misalvarlegar - allt frá þvagleka, hægðaleka og upp í flóknar tæknilegar aðgerðir sem gera þarf á konum eftir erfiðar fæðingar.

Fjöldi þessara aðgerða á þessari sjúkrastofnun einni er um 1.200 aðgerðir á ári. Biðtími kvenna í aðgerðirnar er á bilinu 9-12 mánuðir eftir alvarleika. Ekki er fyrirséð að hægt sé að koma þessum aðgerðum fyrir á öðrum heilbrigðisstofnunum, því er ekki hægt að lesa annað út en að ætlunin sé að fresta þessum aðgerðunum um langa hríð. Þetta verður eftirskrift norrænu velferðarríkisstjórnarinnar. Í 12. gr. kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aðildarríki samningsins skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að afnema mismunun gagnvart konum á sviði heilsugæslu til þess að tryggja á grundvelli jafnréttis karla og kvenna aðgang að heilsugæsluþjónustu, og sérstaklega skulu aðildarríkin tryggja konum viðeigandi þjónustu í sambandi við þungun, barnsburð og tímabilið eftir fæðingu með því að veita ókeypis þjónustu þegar það er nauðsynlegt.

Konur eru vanar að bera harm sinn í hljóði og grindarbotnsvandamál eru nú svo sem ekki mál málanna í almennri umræðu. Nú verðum við þingmenn að standa saman um endurskoðun á heilbrigðismálum kvenna í fjárlagagerðinni. Sú aðför sem ríkisstjórnin fer fram með í fjárlagafrumvarpinu að heilsu og atvinnu kvenna er okkur Íslendingum ekki samboðin.

 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×