Tíska og hönnun

Tvær fyrirsætukeppnir á Íslandi með stuttu millibili

Íslenskar stelpur sem ganga með fyrirsætudrauminn í maganum ættu að geta fundið sér vettvang til að láta ljós sitt skína því tvær fyrirsætukeppnir verða í Reykjavík með nokkurra mánaða millibili.

Íslenska umboðsskrifstofan Eskimo Models hefur aftur tekið við Ford-fyrirsætukeppninni og fer keppnin fram í janúar á næsta ári. Þetta þýðir að tvær fyrirsætukeppnir verða haldnar hér á landi með stuttu millibili því nýtt útibú Elite-módelskrifstofunnar á Íslandi stendur einnig fyrir slíkri keppni í lok september.

Eskimo sá um Ford-keppnina í níu ár en vegna mikilla anna var ákveðið að gera hlé á rekstri hennar. „Þetta var hreinlega orðið of mikið. Við vorum bæði með skrifstofur á Indlandi og að reka tískumerkið E-label og sáum ekki fram á að geta sinnt keppninni líka. Það er mikill undirbúningur og margra mánaða vinna sem liggur að baki svona keppni og við vildum frekar gera þetta vel en að henda þessu upp í flýti," útskýrir Andrea Brabin, eigandi Eskimo Models. Hún sér um keppnina ásamt góðu teymi fagmanna sem samanstendur af fyrirsætunni Tinnu Bergs, hönnuðinum Ásgrími Má, stílistanum Öldu B., Karli Berndsen og förðunarfræðingnum Fríðu Maríu.

Leitin að nýjum fyrirsætum er í hámarki þessa dagana og segir Andrea að vel gangi að finna stúlkur til að taka þátt í keppninni. „Við erum á fullu að leita að stúlkum þessa dagana og það hefur gengið vel. Við erum í fyrsta sinn líka að leita að fyrirsætum í yfirstærð þannig þetta er ekki bara fyrir tággrannar stúlkur. Sigurvegarinn heldur svo út í heim í sumar og keppir þar í alþjóðlegu Ford-keppninni."

Ford-módelskrifstofan var stofnuð árið 1946 í New York og var lengi eina módelskrifstofan þar í borg, eða allt þar til franska umboðsskrifstofan Elite opnaði útibú í borginni í upphafi níunda áratugarins og upp hófst hið svonefnda „fyrirsætustríð". Innt eftir því hvort svipað stríð sé í vændum á Íslandi núna svarar Andrea því neitandi. „Nei, það er ekkert stríð. Þetta er lítið land og öll samkeppni er góð og gefur manni smá spark í rassinn þannig að þetta er bara spennandi og ekkert stríð á milli okkar," segir hún.

[email protected]








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.