Skoðun

Hugsaðu málið, Ögmundur

Hjörtur Hjartarson skrifar

Í Fréttablaðinu 26. febrúar er haft eftir innanríkisráðherra, Ögmundi Jónassyni, að skipi Alþingi stjórnlagaráð gangi það gegn „dómi Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar" til stjórnlagaþings 27. nóvember. Látum liggja milli hluta að Hæstiréttur dæmdi ekki kosningarnar ógildar; hið rétta er að stjórnvaldsnefnd skipuð hæstaréttardómurum ákvað að ógilda kosningarnar. En þetta veit ráðherrann auðvitað.

Tíðindin eru að æðsti maður dómsmála í landinu heldur því fram að umrædd nefnd hafi með ákvörðun sinni bundið hendur Alþingis, og banni því með einhverjum hætti að skipa stjórnlaganefnd eða stjórnlagaráð. Þessi afstaða stríðir gegn almennum hugmyndum um þrískiptingu valds og stjórnskipun Íslands, og felur í sér að framkvæmdavaldið

 

eða dómsvaldið, vilji menn halda því til streitu að Hæstiréttur hafi ógilt kosningarnar – gangi freklega inn á svið löggjafarvaldsins.

Ákvörðuninni um að ógilda kosningarnar til stjórnlagaþings hefur verið hlítt til fullnustu þannig að ekki verður gengið lengra.

Er mögulegt að meining ráðherrans sé út af fyrir sig ekki sú að Alþingi geti ekki, ef það svo kýs, skipað í stjórnlagaráð, en að það gangi gegn ákvörðun hæstaréttardómaranna að skipa þau 25 sem náðu kjöri í stjórnlagaþingskosningunum? Ef svo er, þá versnar enn í því.

Ef löggjafanum er á annað borð frjálst að skipa fólk í stjórnlagaráð, þá bryti það gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að undanskilja þau 25 sem náðu kjöri í kosningunum. Ekki aðeins væri það ólöglegt heldur ósanngjarnt og ólýðræðislegt. Frambjóðendurnir 25 bera enga ábyrgð á þeim hnökrum sem voru á kosningunum til stjórnlagaþings. Þaðan af síður hefur ákvörðunin um að ógilda kosningarnar sett blett á trúverðugleika þeirra. Þau náðu kjöri í almennum kosningum sem enginn dregur í efa að hafi skilað réttri niðurstöðu og farið fram án þess að nokkur brögð væru í tafli.

Með öðrum orðum, ef manna á stjórnlagaráð almennum borgurum, þá er lýðræðislegt, sanngjarnt og fullkomlega löglegt að í því sitji þau 25 sem náðu kjöri í kosningunum 27. nóvember. Núverandi afstaða innanríkisráðherra er hins vegar ótæk.

Ég skora á Ögmund að hugsa málið upp á nýtt. Hann getur í þessu efni óhræddur lagst á árar með þeim sem ætla að leggja grunn að heilbrigðara samfélagi á Íslandi. Í því felst engin vanvirðing við Hæstarétt. Fullyrðingar um slíkt eru rakalausar.

 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×