Skoðun

Ég er með athyglisbrest - ég er heppinn

Vilhjálmur Hjálmarsson skrifar
Athyglisbrestur er ekkert til að skammast sín fyrir – þetta er einfaldlega eiginleiki sem er hluti af mínu daglega lífi. Á stundum þvælist hann fyrir en oftar en ekki næ ég að nýta hann til góðs. Fyrir mig og aðra.

Sumir dagar eru erfiðari, en með því að leita upplýsinga og haga mínum málum í samræmi við það hefur mér tekist að fjölga þeim góðu. Á vondum degi er fátt betra en að grípa í hnakkadrambið á sjálfum sér, hlæja að allri vitleysunni og setja kúrsinn upp á nýtt.

En ég er heppinn – á góða að og hef getað sótt mér þá aðstoð sem þurfti. Ekki eru allir í sömu sporum. Fordómar og vanþekking á málefninu eru ríkjandi og flestir vaða eld og brennistein á sinni vegferð.

Sjálfur kýs ég ekki að líta á athyglisbrest – með eða án ofvirkni – sem sjúkdóm eða röskun. En í því samfélagi sem við búum í er það oft eina leiðin til að fá aðstoð hins opinbera. Þau spor geta reynst þung og stutt er í fordóma – ekki síst í eigin huga. Við þessu þarf að bregðast.

Samevrópsk ADHD-vitundarvika sem nú stendur yfir er liður í þeirri vinnu. Með slagorðunum „Athygli, já takk!" vilja ADHD-samtökin leggja sitt af mörkum til að auka skilning á málefninu og auðvelda einstaklingum með athyglisbrest og aðstandendum að sækja sér þá hjálp sem hver og einn þarfnast.

Og einu má ekki gleyma: Staðreyndin er einfaldlega sú að athyglisbrestur – rétt eins og önnur „frávik frá norminu" – er ekki frávik frá því eðlilega heldur eðlilegur hluti af flóru lífsins.

Þess vegna hvet ég alla til að sækja málþing ADHD-samtakanna í Iðu föstudaginn 23. september klukkan 13.00 (sjá t.d. www.adhd.is).




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×