Skoðun

Mikil arðsemi af raforkusölu til stóriðju

Þorsteinn Víglundsson skrifar
Ekkert íslenskt fyrirtæki er með meira eigið fé en Landsvirkjun, samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar á 300 stærstu fyrirtækjum landsins miðað við árið 2010. Arðsemi Landsvirkjunar á liðnum áratug hefur enda verið með miklum ágætum. Eigið fé félagsins hefur liðlega fjórfaldast og nam nærri 190 milljörðum króna í árslok 2010.

Engin hlutafjáraukning hefur átt sér stað hjá Landsvirkjun á liðnum áratug heldur hefur félagið byggt upp eigið fé sitt með góðum rekstri á tímabilinu. Arðsemi Landsvirkjunar er góð samanborið við önnur frambærileg íslensk fyrirtæki á borð við Marel, Össur, Alfesca og HB Granda. Öll eiga þessi félög það sammerkt að vera meðal eiginfjársterkustu félaga landsins, hafa öll notið umtalsverðs vaxtar á liðnum áratug og hafa ekki þurft að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Í öllum tilfellum er stuðst við uppgjörsmynt hvers félags.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er meðalarðsemi Landsvirkjunar nærri 19% á þessu tímabili, samanborið við um 11% hjá Össur og HB Granda, 6% hjá Alfesca og 1% hjá Marel. Við mat á meðalarðsemi er horft til breytinga eigin fjár að teknu tilliti til arðgreiðslna og hlutafjáraukninga hjá hverju félagi fyrir sig.

Í nýlegri skýrslu Sjónarrandar, sem unnin var fyrir Fjármálaráðuneytið, kemur fram að arðsemi Landsvirkjunar af raforkusölu til stóriðju hefur verið liðlega tvöfalt hærri en arðsemi af raforkusölu til almennings. Skýrsluhöfundar hafa við mat á arðsemi ekki viljað líta til arðsemi eigin fjár, þar sem Landsvirkjun njóti ríkisábyrgðar á öll lán sín og því betri lánskjara en ella og geti skuldsett sig meira. Landsvirkjun greiðir hins vegar gjald til ríkissjóðs fyrir ríkisábyrgðina sem leiðir til lægri hagnaðar en ella. Mæling á arðsemi eigin fjár er því mjög eðlilegur mælikvarði á árangur Landsvirkjunar eins og annarra fyrirtækja. Það er hins vegar fyllilega eðlilegt að gera þá kröfu til Landsvirkjunar að fyrirtækið skili góðri arðsemi eigin fjár. Sú er líka raunin.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×