Skoðun

Stuðningsgrein: Hógvær leiðtogi allrar þjóðarinnar

Ingibjörg Hjaltadóttir skrifar
Leiðtogi sem sameinar og hvetur er það sem við þörfnumst í dag. Ég minnist þess hvað Kristján Eldjárn og Vigdís vöktu með mér mikið stolt yfir forsetaembættinu. Með hógværð og yfirvegun sameinuðu þau Íslendinga og leiddu fram á veginn. Vissulega erum við ekki að leita til gamalla tíma en þau gildi sem þessir forsetar stóðu fyrir eru sannarlega þau gildi sem við þörfnumst í dag. Til viðbótar þurfum við að líta björtum augum til framtíðar, takast á við þau verkefni sem blasa við og standa saman sem þjóð.

Það er liðin tíð að við viljum berja okkur á brjóst og tiltaka 10 atriði sem gera okkur betri en aðrar þjóðir. Við erum hvorki betri né verri en aðrar þjóðir en þörfnumst hvers annars til að skapa mannvænlegt og gott samfélag á Íslandi. Til þess að leiða okkur á þeirri braut þörfnumst við forseta sem sameinar okkur, er forseti allra landsmanna og gengur með okkur til nýrra tíma og nýrra verkefna. Ég treysti Þóru Arnórsdóttur til þeirra verka.

Þóra hefur líka það til að bera að vera góð fyrirmynd kvenna og talsmaður jafnréttis. Hún er ekki hrædd við að vinna mikið þó að hún hafi ásamt manni sínum fyrir börnum að sjá. Að vinna mikið á hún sameiginlegt með flestum íslenskum nútímakonum. Reyndar hafa íslenskar konur alla tíð unnið mikið, þó það hafi ekki alltaf verið utan heimilis. Ýmsir hafa bent á það sem galla að hún sé nýbúin að eiga barn og mælast til að hún að hugsi eingöngu um barnið og láti þjóðfélagsmál eiga sig.

Þetta er ný útgáfa af því sem heyrðist hér á árum áður að konur ættu að vera heima að hugsa um börn. Börn þurfa á báðum foreldrum að halda og fæðingarorlof er ætlað báðum foreldrum og á Íslandi eru karlar duglegir að nýta fæðingarorlof. Það er sannarlega mikilvægt að hafa langt fæðingarorlof eins og við búum við hér á Íslandi og það er til fyrirmyndar að foreldarar geti til jafns hugsað um börnin sín. Við skulum hins vegar minnast þess að það að vera nýbúin að eiga barn er ekki sjúkdómur og í flestum vestrænum ríkjum eru konur farnar að vinna eftir fárra vikna fæðingarorlof. Þóra svarar kalli um að bjóða sig fram til forseta þó stutt sé síðan hún eignaðist barn. Það er merki um hversu mikinn styrk hún hefur. Ég sé í Þóru leiðtoga sem mun sameina Íslendinga og leiða okkur til nýrra tíma af hógværð og festu, hún á mitt atkvæði því öruggt.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×