Skoðun

Verðbólgan og meint auðsöfnun innflytjenda erlendis

Hún er lífseig sagan af innflytjendum sem hagnast á verðbólguumhverfi með því að hækka verð umfram kostnað. Nýlegt dæmi er að fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði í blaðagrein á dögunum að ýmislegt benti til að þráláta verðbólgu undanfarinna missera mætti meðal annars skýra með óeðlilegri hækkun innflutningsverðlags vegna þess að innflytjendur væru að safna fé á erlenda reikninga. Engin frekari skýring var gefin á þessari fullyrðingu í greininni.

Fyrir þá sem vilja kynna sér staðreyndir um verðlagsþróun á Íslandi undanfarin misseri nefnum við hér tvö dæmi:

Samkeppniseftirlitið gaf nýverið út skýrslu um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Í skýrslunni var verð á dagvöru á árabilinu 2006 til 2011 skoðað sérstaklega með því bera saman verðþróun dagvöru við heildsöluverð, gengisþróun, kostnaðarþætti og fleira. Undir yfirskriftinni „hækkandi verð á dagvöru skýrist af ytra umhverfi" segir m.a. í skýrslu eftirlitsins: „Niðurstöður þessa samanburðar gefa ekki vísbendingar um að verð á dagvöru hafi hækkað meira en gengisþróun og verðhækkun á sömu vöru og hráefnum frá erlendum birgjum gáfu tilefni til. Þá hefur vísitala innlendrar mat- og drykkjarvöru hækkað svipað og verð á sömu vöru í smásölu."

Ekki styður þessi könnun Samkeppniseftirlitsins fullyrðingar um að innflytjendur eða smásalar hafi notað tækifærið til að hækka verð umfram kostnað.

"Verðbólgan er innlend“

Vikuritið Vísbending birti síðan mjög áhugaverða grein þann 9. apríl sl. undir yfirskriftinni „Verðbólgan er innlend". Þar er verðbólga sl. 12 mánaða (frá mars 2011 til mars 2012) skoðuð sérstaklega með því að bera saman hækkanir einstakra undirliða vísitölunnar. Niðurstaðan er sú að helstu hækkunarliðirnir eru innlendir. Um verðþróun innfluttrar vöru segir m.a. í Vísbendingu: „Sérstaka athygli vekur að erlend mat- og drykkjarvara hefur ekki hækkað á undanförnum tólf mánuðum svo neinu nemi. Þetta þýðir að erlendir birgjar, innflytjendur og smásalar hafa tekið á sig þá 8-9% hækkun sem hefði átt að lenda hjá neytendum ef aðeins er litið á veikingu krónunnar og erlendar verðhækkanir."

Við höfum hér nefnt tvö dæmi sem byggja á faglegri greiningu og staðreyndum. Bæði sýna með skýrum hætti að ekki er með nokkru móti hægt að sjá að innflutningsaðilar hafi notið góðs af þeirri verðlagshækkun sem orðið hefur undanfarin misseri. Hin bitri sannleikur er sá að allir tapa á núverandi ástandi! Lausnin felst í raunsærri langtímasýn á stjórnun efnahagsmála sem tryggir aukinn kaupmátt og stöðugra verðlag. Svo væri nú ekki verra að fá faglega opinbera umræðu í kaupbæti.

Margrét Guðmundsdóttir, formaður Félags atvinnurekenda

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×