Skoðun

Leitin að samræðugeninu

Svandís Svavarsdóttir skrifar
Eitt stærsta hlutverk stjórnmálanna er að viðhalda samræðu á milli þriggja mikilvægra þátta samfélagsins; stjórnsýslunnar, sérfræðinga og almennings. Með því að halda þessu jafnvægi má tryggja að opinber stefnumótun byggi á ólíkum sjónarmiðum og þar með tryggja lýðræðislegan framgang samfélagsins.

Hér á landi hefur oft skort á þetta samspil samfélagsþáttanna þriggja, svo mjög að sumir vilja meina að samræðugenið sé víkjandi arfgerð hjá Íslendingum.

Fyrr í vikunni boðaði umhverfisráðuneytið til málþings um erfðabreytta ræktun. Þetta er mjög umdeildur málaflokkur, þar sem ótal álitamál eru fyrir hendi – ekki aðeins hvað varðar vísindin, heldur ekki síður líffræðilega fjölbreytni, sambúð við aðra ræktun og ýmis siðferðileg álitamál. Í þessum málaflokki hefur skort heildstæða stefnumörkun, sem ég tel þurfa að bregðast við í ljósi hraðrar þróunar á undanförnum árum.

Erfðabreytt ræktun er gott dæmi um málaflokk þar sem samræða ólíkra hópa hefur ekki verið eins og best verður á kosið – hún hefur skipst í andstæðupóla, sem illa gengur að brúa á milli. En á sama tíma er þetta einn af þeim málaflokkum þar sem samræðan er hvað mikilvægust. Málþingið var hugsað sem fyrsta skrefið í að byggja brýr á milli pólanna, en tókst ekki sem skyldi.

Þegar upp var staðið reyndumst við hafa skipulagt málþing, þar sem sérfræðingar og fulltrúar stjórnsýslu áttu sviðið – en sjónarmið almennings áttu ekki fulltrúa meðal frummælenda. Jafnframt reyndist á köflum of lítið gert úr afstöðu þeirra sem setja spurningarmerki við ýmsa þætti erfðabreyttrar ræktunar. Í kjölfarið hefur hluti umfjöllunarinnar verið gagnrýndur fyrir að umgangast andstæðar skoðanir ekki af nægjanlegri virðingu – og þar með gera þeim sem ekki aðhyllast sömu sterku vísindahyggjuna erfiðara að taka þátt í samræðunni.

Umhverfisráðuneytið leit alltaf á málþingið sem fyrsta skrefið í að móta ítarlega stefnu hér á landi um erfðabreytta ræktun.

Við höldum ótrauð í það ferðalag, þó ekki hafi tekist nógu vel við fyrsta skrefið. Vonandi finnum við samræðugenið á leiðinni, svo okkur auðnist að gera ólíkum sjónarmiðum jafnhátt undir höfði við þá stefnumótun.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×