Innlent

520 milljóna svik til sérstaks saksóknara

Skattrannsóknarstjóri hefur vísað tólf málum til ákærumeðferðar hjá sérstökum saksóknara sem varða svokallaða framvirka samninga og hagnað af þeim. Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.

Af slíkum hagnaði ber að greiða fjármagnstekjuskatt, sem er tíu prósent. Á því varð verulegur misbrestur, einkum á árunum fyrir hrun.

Að sögn Bryndísar nema heildartekjurnar í þessum tólf málum 5,2 milljörðum króna. Af þeirri upphæð hefur átt að greiða 520 milljónir í skatt.

Fréttablaðið sagði frá því á miðvikudag að sérstakur saksóknari hefði þegar ákært Ragnar Þórisson, sjóðsstjóra hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital, fyrir skattsvik vegna framvirks samnings sem hann gerði við MP banka árið 2006. Hann mætti fyrir dóm í gær vegna málsins og neitaði sök.

Í tilviki Ragnars nam hagnaðurinn 120 milljónum, og fjármagnstekjuskatturinn sem hann ekki greiddi því tólf milljónum.

Stærsta málið af þessu tagi sem skattrannsóknarstjóri hefur sent sérstökum saksóknara er hins vegar sjö sinnum stærra. Þar nam hagnaðurinn um 900 milljónum og vangoldni skatturinn því 90 milljónum.

Bryndís tekur fram að rétt sé að gera þann fyrirvara að upphæðirnar geti tekið breytingum þegar yfirskattanefnd fer aftur yfir málin. Nokkur þeirra séu nú þar til meðferðar.

[email protected]




Fleiri fréttir

Sjá meira


×