Skoðun

Gefið þeim sem græddu

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Misgengi á þróun íbúðaverðs og lána sem varð á árunum 2008 og 2009 hefur vakið upp kröfur um lækkun verðtryggðu lánanna um allt að 20% til þess að bæta eignarýrnunina. Þykir eignarýrnunin ósanngjörn og eðlilegt talið að skattgreiðendur eða lífeyrisþegar beri kostnaðinn.

En þessi lýsing á hreint ekki við nema stundum og veruleg vandkvæði eru á því að framkvæma skuldaniðurfellinguna þannig að sanngjarnt verði. Húsnæðislán eru veitt til 25-40 ára. Ekki er hægt að líta til misgengis á einu afmörkuðu tímabili heldur verður að gera leiðréttingar yfir allan lánstímann. Þá verður að leiðrétta misgengi á báða vegu, bæði þegar íbúðareigandi tapar og líka þegar hann hagnast vegna þess að íbúðarverð hækkar meira en lánin. Það er engan veginn sanngjarnt að hagnaður sé einkavæddur en tapið sent til skattgreiðenda eða ömmu og afa. Loks verður að bæta misgengi sem verður vegna annarra orsaka en bankahruns eins og til dæmis vegna breytinga í atvinnulífi einstakra byggðarlaga. Mörg dæmi eru um mikið verðfall fasteigna á undanförnum áratugum víða um landið, jafnvel mun meira en nú varð á höfuðborgarsvæðinu, og jafnræðisregla stjórnarskrárinnar gerir það að verkum að ekki verður hægt að mismuna íbúðareigendum eftir staðsetningu fasteignar, orsökum hruns eða hvenær það varð.

Lítum á dæmi um fasteign á höfuðborgarsvæðinu sem keypt var í ársbyrjun 2000. Gert er ráð fyrir að hún hafi kostað 15 m.kr. og viðskiptabankinn hafi lánað fyrir öllu kaupverðinu til 25-40 ára verðtryggt. Til einföldunar er gert ráð fyrir að ekkert hafi verið greitt af láninu nema vextir. Miðað við markaðsverð í dag myndi íbúðin seljast á 39 m.kr. en lánið stæði í 31 m.kr. Kaupandinn sem ekkert átti í upphafi hefur eignast fyrirhafnarlaust 8 m.kr. og á 20% skuldlausan eignarhlut. Krafan um 20% lækkun lánsins þýðir að viðkomandi yrðu færðar á silfurfati 6 m.kr. til viðbótar. Hvaða ranglæti er verið að lagfæra? Með vaxandi kaupmætti á næstu árum mun íbúðarverð hækka umfram hækkun lánsins. Þá á íbúðareigandinn eignaaukninguna einn og lífeyrisþeginn sem greiddi lækkun lánsins fær ekkert. Hvar er sanngirnin í þessu?




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×