Hræðslan truflar dómgreindina Ólafur Þ. Stephensen skrifar 22. mars 2013 06:00 "Þennan málflutning er því erfitt að skilja nema það vaki fyrir mönnum að knýja fram breytingar með því að hræða fólk. Það hefur aldrei gefist vel. Hræðslan truflar dómgreindina." Þetta skrifaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í grein í Fréttablaðinu í gær. Það sem Ögmundur segist ekki skilja eru áhyggjur Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, af afleiðingum þess að lögreglan fái ekki sömu heimildir til eftirlits með skipulögðum glæpaklíkum og lögregla í nágrannalöndunum. Lögreglustjórinn sagði á fundi Varðbergs í síðustu viku að meðal þessara afleiðinga gætu orðið gengjastríð, betl, götuvændi og vasaþjófnaður, en allt eru þetta fylgifiskar skipulagðrar, alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Ögmundur hefur rétt fyrir sér í því að slíkar spár eiga menn ekki að setja fram án þess að hafa eitthvað fyrir sér í þeim. En skoðum málið aðeins út frá þeim vinkli sem ætti að vera almenningi ofarlega í huga, ekki sízt nú þegar líður að kosningum, að stjórnmálamenn séu samkvæmir sjálfum sér. Hefur Ögmundur alltaf fylgt eigin reglu um að forðast hræðsluáróðurinn, ekki sízt í málum sem tengjast samskiptum Íslands við umheiminn rétt eins og áhyggjurnar af skipulögðum glæpasamtökum? Ráðherrann lagði nýlega fram drög að frumvarpi sem þrengir verulega að rétti útlendinga til að eignast fasteignir á Íslandi. Rökin voru meðal annars þau að auðkýfingar söfnuðu jörðum hér á landi "án þess að hafa nokkurn tilgang með því að sinni annan en að safna eignarlandi á Íslandi". Ráðherrann vísaði sérstaklega til landakaupa Svisslendingsins Rudolfs Lamprecht í Mýrdal og sagðist hyggja "að þetta sé líka að gerast annars staðar án þess að ég vilji á þessu stigi fara nánar út í það". Samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið tók saman er nákvæmlega ekkert til í þessu. Útlendingar eru ekki að safna jörðum á Íslandi og eiga rúmlega þriðjung úr prósenti af jarðeignum í landinu. Er þetta þá eitthvað annað en hræðsluáróður hjá ráðherranum; hið alþekkta trix að hræra upp í andúð á útlendingum rétt fyrir kosningar? Sömuleiðis rifjast upp grein Ögmundar í Morgunblaðinu sumarið 2010 þar sem hann lét að því liggja að útlendingar myndu eignast auðlindir Íslands ef aðild að Evrópusambandinu yrði að veruleika. Fyrir utan tilvísanirnar í landvinningastefnu Hitlers ("Festung Island" og "lífsrými") vöktu þessar setningar Ögmundar mesta athygli: "En ekki mun standa á styrkveitingum – svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn." Var þetta málefnalegur málflutningur, laus við hræðsluáróðurinn sem truflar dómgreindina? Pólitíkusar mættu gera meira af því að byggja málflutning sinn á handföstum staðreyndum. Ef menn byggja á upplýsingum um reynslu annarra vestrænna ríkja undanfarna áratugi, hvað er þá líklegast af þessu þrennu: Að land glati auðlindum sínum við inngöngu í Evrópusambandið; að frjálsar fjárfestingar í fasteignum leiði af sér skaðleg ítök útlendinga í þróuðu ríki með sterkt regluverk; eða að útlendar glæpaklíkur nái fótfestu í höfuðborginni? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun Ísland - land tækifæranna Ragnhildur Jónsdóttir Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun
"Þennan málflutning er því erfitt að skilja nema það vaki fyrir mönnum að knýja fram breytingar með því að hræða fólk. Það hefur aldrei gefist vel. Hræðslan truflar dómgreindina." Þetta skrifaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í grein í Fréttablaðinu í gær. Það sem Ögmundur segist ekki skilja eru áhyggjur Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, af afleiðingum þess að lögreglan fái ekki sömu heimildir til eftirlits með skipulögðum glæpaklíkum og lögregla í nágrannalöndunum. Lögreglustjórinn sagði á fundi Varðbergs í síðustu viku að meðal þessara afleiðinga gætu orðið gengjastríð, betl, götuvændi og vasaþjófnaður, en allt eru þetta fylgifiskar skipulagðrar, alþjóðlegrar glæpastarfsemi. Ögmundur hefur rétt fyrir sér í því að slíkar spár eiga menn ekki að setja fram án þess að hafa eitthvað fyrir sér í þeim. En skoðum málið aðeins út frá þeim vinkli sem ætti að vera almenningi ofarlega í huga, ekki sízt nú þegar líður að kosningum, að stjórnmálamenn séu samkvæmir sjálfum sér. Hefur Ögmundur alltaf fylgt eigin reglu um að forðast hræðsluáróðurinn, ekki sízt í málum sem tengjast samskiptum Íslands við umheiminn rétt eins og áhyggjurnar af skipulögðum glæpasamtökum? Ráðherrann lagði nýlega fram drög að frumvarpi sem þrengir verulega að rétti útlendinga til að eignast fasteignir á Íslandi. Rökin voru meðal annars þau að auðkýfingar söfnuðu jörðum hér á landi "án þess að hafa nokkurn tilgang með því að sinni annan en að safna eignarlandi á Íslandi". Ráðherrann vísaði sérstaklega til landakaupa Svisslendingsins Rudolfs Lamprecht í Mýrdal og sagðist hyggja "að þetta sé líka að gerast annars staðar án þess að ég vilji á þessu stigi fara nánar út í það". Samkvæmt upplýsingum sem Fréttablaðið tók saman er nákvæmlega ekkert til í þessu. Útlendingar eru ekki að safna jörðum á Íslandi og eiga rúmlega þriðjung úr prósenti af jarðeignum í landinu. Er þetta þá eitthvað annað en hræðsluáróður hjá ráðherranum; hið alþekkta trix að hræra upp í andúð á útlendingum rétt fyrir kosningar? Sömuleiðis rifjast upp grein Ögmundar í Morgunblaðinu sumarið 2010 þar sem hann lét að því liggja að útlendingar myndu eignast auðlindir Íslands ef aðild að Evrópusambandinu yrði að veruleika. Fyrir utan tilvísanirnar í landvinningastefnu Hitlers ("Festung Island" og "lífsrými") vöktu þessar setningar Ögmundar mesta athygli: "En ekki mun standa á styrkveitingum – svona rétt á meðan verið er að tala okkur til. Hið sama gæti hent okkur og indíána Norður-Ameríku. Þeir töpuðu landinu en sátu uppi með glerperlur og eldvatn." Var þetta málefnalegur málflutningur, laus við hræðsluáróðurinn sem truflar dómgreindina? Pólitíkusar mættu gera meira af því að byggja málflutning sinn á handföstum staðreyndum. Ef menn byggja á upplýsingum um reynslu annarra vestrænna ríkja undanfarna áratugi, hvað er þá líklegast af þessu þrennu: Að land glati auðlindum sínum við inngöngu í Evrópusambandið; að frjálsar fjárfestingar í fasteignum leiði af sér skaðleg ítök útlendinga í þróuðu ríki með sterkt regluverk; eða að útlendar glæpaklíkur nái fótfestu í höfuðborginni?
Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun
Sálfræðiþjónusta: Ég var heppinn að pabbi hafi greinst með krabbamein Davíð Brynjar Sigurjónsson Skoðun