Skoðun

Ljúkum aðildarviðræðunum

Össur Skarphéðinsson skrifar
Í fyrsta lagi vegna þess að Evrópumálin eru eitt stærsta hagsmunamál Íslands til framtíðar. Aðild að ESB snýst um að koma á traustari umgjörð um efnahagslífið þannig að verðbólga og vextir geti lækkað og stöðugleiki komist á. Varanlega. Í dag nemur Íslandsálagið á krónuna um 130-230 milljörðum á hverju ári og íslenskar fjölskyldur borga 117 milljörðum meira á ári af húsnæðislánum en heimili í Evrópu. Það er ekki hægt að aðskilja skuldamálin frá gjaldmiðilsmálunum. Þess vegna eru Evrópumálin svona brýn.

Í öðru lagi vegna þess að við erum langt komin í viðræðunum. Samningar eru hafnir eða þeim lokið í um 4/5 hluta allra málaflokka. Við höfum náð mjög góðum árangri við að koma á framfæri skilningi á sérstöðu Íslands í sjávarútvegsmálum, landbúnaði, byggðamálum og umhverfismálum. Samningalið okkar er þrautþjálfað og einbeitt í að ná sem bestum samningi. Í þriðja lagi myndu slit á viðræðunum endanlega skera á þann möguleika að taka upp evru – ef þjóðin svo kýs. Seðlabankinn hefur sagt skýrt að evran er eini raunhæfi valkosturinn við veika krónu. Það er í skýrri andstöðu við blákalda hagsmuni Íslands að taka frá þjóðinni möguleikann á að velja þar á milli.

Eina leiðin

Í fjórða lagi vegna þess að þetta er eina leiðin til þess að útkljá Evrópumálin. Einungis með því að fá aðildarsamning á borðið sjáum við raunverulega hvað aðild felur í sér. Þá getur umræðan um aðild og áhrif aðildar á byggðamálin, umhverfi og auðlindir, unga fólkið, rannsóknir og þróun, smáfyrirtæki og skapandi greinar, snúist um staðreyndir en ekki getgátur. Stór hluti Evrópuandstöðunnar byggir á þeirri trú að Íslendingar geti ekki ná góðum samningi. Ég er ekki haldinn þeirri vanmetakennd.

Í fimmta lagi er lýðræðislegt að ljúka samningum. Meirihluti Alþingis samþykkti að fela ríkisstjórn að sækja um aðild að ESB. Víðtækt samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila og félagasamtök í samningaferlinu. Gögn eru birt jafnskjótt á vefnum. Skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt að mikill meirihluti Íslendinga vill sjá samninginn. Þjóðin á að eiga lokaorðið í Evrópumálunum.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×