Skoðun

Var þetta allt „og“ sumt?

Almar Guðmundsson skrifar

Frumvarp um breytingar á tollalögum er til umræðu á Alþingi núna og stefnir í að það verði lögfest nú fyrir jól. Umrætt frumvarp kemur ekki til af góðu. Það er í raun önnur tilraun stjórnvalda til að bregðast við aðfinnslum umboðsmanns Alþingis varðandi úthlutun tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum.

En málið er ennþá stærra. Það snýst fyrst og síðast um skuldbindingar íslenska ríkisins gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), möguleika til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, lögmæti gjaldtöku og rétt neytenda til aðgengis að ódýrari matvöru. Efni frumvarpsins breytir engu um þá staðreynd að íslenska ríkið uppfyllir ekki þjóðréttarlegar skyldur sínar og innheimtir umtalsverð gjöld án þess að fyrir þeirri gjaldheimtu sé fullnægjandi lagastoð. Það er því mikilvægt að endurskoðun á lögunum fari fram að vel ígrunduðu máli og með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Ennfremur má minna á að stjórnvöld vinna nú að einföldun regluverks en umgjörð um tollvernd búvara þarf svo sannarlega á því að halda að regluumgjörð sé einfölduð.

Við meðferð málsins tók atvinnuveganefnd Alþingis það til meðferðar. Félag atvinnurekenda benti á ofangreinda meinbugi og í umsögn Samkeppniseftirlitsins sagði til dæmis: „Tollkvótar hafa almennt í för með sér neikvæð áhrif á samkeppni sem veldur bæði atvinnulífi og neytendum tjóni.“ Þá beinir eftirlitið því til nefndarinnar „að beita sér fyrir því að horfið verði frá aðgangshindrunum sem almennt felast í tollkvótum á innflutningi á búvörum“.

Aðfinnslurnar voru sem sagt afgerandi og flestar á einn veg. Þær kölluðu á afgerandi afstöðu nefndarinnar og mikla bragarbót á frumvarpinu. Undirritaður fylltist því bjartsýni þegar breytingartillaga nefndarinnar við frumvarpið kom fram. Bjartsýni fyrir hönd neytenda og fyrir hönd borgara sem vilja að íslenska ríkið standi við skuldbindingar sínar og vandi lagasetningu.

Nú skyldi láta hendur standa fram úr ermum. En sú gleði varð skammvinn. Aðeins ein breyting var gerð af nefndinni. Sú breyting var af smærri gerðinni. Orðinu „og“ skyldi bætt við eina setningu í frumvarpinu. Annað skyldi standa óbreytt. Eftir allar þessar ábendingar og augljósu galla. Þrátt fyrir allt var breytingin eitt lítið „og“.

Það var og.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×