Skoðun

Af landbúnaði og listum

Einar Freyr Elínarson skrifar
Mikil umræða hefur nú verið, eins og oft áður, um landbúnað og styrkjaumhverfið sem hann býr við. Þar hefur farið mikinn Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, og talar um íslenska bændur á framfæri skattgreiðenda við að mjólka og smala kindum. Þó svo að ríkisstyrktur landbúnaður tíðkist um allan heim.

En svo er önnur skemmtileg umræða sem skýtur oft upp kollinum. Styrkir til menninga og lista.

Andstæðingar þeirra styrkja hrópa hátt og snjallt að þeir sem geti ekki selt sína vöru, listina, og lifað af því eigi bara að finna sér eitthvað annað að gera.

Landbúnaður + Menning

Ég vil meina að þessir tveir hlutir, styrkir til landbúnaðar og styrkir til menninga og lista, séu í raun sami hluturinn. Þó að mér finnist að framlög til menninga og lista mættu vera enn meiri.

Allt snýst þetta um að tryggja og styrkja stoðir íslenskrar framleiðslu. Hvort tveggja er nefnilega nauðsynlegt okkar samfélagi. Mönnum er oft tíðrætt um matvælaöryggi, og að sama skapi tel ég að tryggja þurfi menningaröryggi okkar Íslendinga.

Raunveruleiki þessa máls er ekki svo ferkantaður að hann sé einfaldlega hægt að útskýra með hagfræðilíkani. Það er kannski þess vegna sem hann er sumu fólki svo torskilinn.

Í raun lít ég ekki á þessi framlög ríkisins sem styrki. Mér fyndist réttara að tala um þetta sem niðurgreiðslur til neytenda.

Ef ekki kæmu til þessi framlög ríkisins væru þessar vörur þeim mun dýrari. Þetta er lykilatriði, sem ég held að margir sjái ekki.

Ef beingreiðslur til bænda væru ekki greiddar, þá þyrftu neytendur að borga hærra verð fyrir kjötið og mjólkina í búðinni. Eða þá að þessi framleiðsla myndi lognast út af.

Sjálfsagt getur fólk spurt sig: „En þurfum við virkilega á þessu að halda?“

Við gætum alveg flutt inn þann mat sem við þurfum.Við getum meira að segja flutt inn menningu og list.

Það væri kannski auðveldasta leiðin. Sem er sjaldnast sú rétta.

Þetta snýst um það hvort við viljum tryggja íslenska framleiðslu og fjölbreytt samfélag.

Sem ég vona að flestir vilji.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×