Skoðun

„Fæðutöff“

Eygló Harðardóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar

Vilt þú gera eitthvað skemmtilegt, fræðandi, mikilvægt og uppbyggjandi með börnunum þínum? Ef svarið er já, lestu þá áfram. Jamie Oliver, matargúrú með meiru, hefur staðið fyrir alþjóðlegu átaki um skeið undir yfirskriftinni matarbyltingardagurinn 16. maí. Tilgangurinn er að fá börn til að verða áhugasamari um mat. Allir sem umgangast börn eru hvattir til að kenna þeim að elda mat frá grunni og sýna þeim að slíkur matur er ekki bara bragðgóður heldur geta breyttar matarvenjur líka bætt heilsu og aukið hamingju og velferð þeirra.



Foreldrar – ömmur – afar

Nauðsynlegt er að komandi kynslóðir kunni skil á því að kaupa inn og matreiða úr hollu hráefni svo þær geti tileinkað sér heilbrigðan lífsstíl. Börn morgundagsins munu að lokum taka við. Framtíðin er þeirra og því á ábyrgð okkar að þau alist upp með skilning á góðum mat, eða eins og Jamie orðar það upp á ensku „food-smart“. Átak Jamie Oliver er stórskemmtilegt og fróðlegt, en það má finna á www.foodrevolutionday.com. Í tilefni matarbyltingardagsins 16. maí viljum við hvetja alla foreldra, afa og ömmur landsins og aðra þá sem umgangast börn, til þess að taka þátt í átakinu og elda með börnunum góðan mat á föstudaginn eða um helgina.



Tökum þátt

Þeir sem smella ljósmynd af sér og börnum við eldamennskuna geta tekið þátt í ljósmyndahluta verkefnisins hér á landi. Þeir hinir sömu eru hvattir til að senda myndina til velferðarráðuneytisins á netfangið [email protected]. Myndirnar verða birtar á vef ráðuneytisins í lok maí. Við hvetjum alla til að taka þátt í skemmtilega matarbyltingardeginum 16. maí. Eldum saman þannig að komandi kynslóðir verði meðvitaðar um hvað er hollt og gott. Hugum að velferð barnanna okkar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×