Skoðun

Reynslusaga úr stórborginni

Hildur Sverrisdóttir skrifar
Ég samþykki deitbeiðnina eftir að hafa njósnað á Facebook og kortlagt sameiginlega vini okkar. Um leið og við göngum inn á veitingastaðinn sé ég þrjá kunningja mína sem forvitnum augum fylgjast laumulega með okkur.

Við borðhaldið grípum við til þjóðlegu samtalshækjunnar og spyrjum út í skólagöngu hvort annars sem er í raun inngangur að þjóðaríþróttinni „þekkir þú þá þennan?“. Við erum í miðju kafi við að tengja saman að gamall bekkjarbróðir hans vinnur með mér og að vinkona mín sé barnsmóðir vinnufélaga hans þegar inn kemur kona sem ég þekki úr lagadeildinni.

Mér til skelfingar gengur hún askvaðandi til okkar og ekki batnar það þegar í ljós kemur að þau þekkjast greinilega líka. Svo kemur spurningaflóð þar sem hún spyr æst hvenær við höfum byrjað saman. Við muldrum að við séum nú ekki saman; skömmustuleg þögnin sem fylgir kemur henni í skilning um hvað klukkan slær og glottið breiðist út á kinnar hennar. Svo stendur hún yfir okkur kankvís og útlistar hátt og snjallt möguleika okkar á hamingjusamri framtíð meðan við reynum að flýja aðstæður inn í eftirréttaseðilinn. Dómur fellur og við ku eiga séns þó við séum ólík. Þá vitum við það.

Á rölti eftir matinn kemur hann auga á fyrrverandi kærustu sína (sem ég man eftir frá því í grunnskóla) og við afstýrum hugsanlega vandræðalegum endurfundum með því að stinga okkur inn í fyrsta leigubíl sem silast niður Laugaveginn. Undir stýri situr Gunni frændi og heilsar með virktum. Kveðjustundin í Vesturbænum var því skiljanlega með eindæmum óþægilega dönnuð. Ég geri ráð fyrir að öll móðurfjölskyldan hafi svo heyrt af piltinum sem skutlaði Hildi heim.

Næstu daga barst mér fjöldi skilaboða frá spyrjandi vinum, því eins og góðu sjávarþorpi sæmir þá flýgur fiskisagan. Við kauði hins vegar sammæltumst um að vera ekkert í frekari samskiptum okkar í milli. Það er þó aldeilis gott að ég get gert ráð fyrir að rekast á hann alls staðar það sem eftir er.

Það vantar fleira fólk á þetta land. Slökum á innflytjendastefnunni.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×