Skoðun

Pikkföst á Bústaðaveginum

Hjálmar Sveinsson skrifar
Það er árvisst umfjöllunarefni fjölmiðla í september að fólk kemst ekkert áfram á morgnana í bílnum. Allt er pikkfast á Bústaðaveginum. Svo leysist þetta einhvern veginn.

En hvernig verður ástandið eftir 15 ár þegar íbúum svæðisins hefur fjölgað um 40.000? Hversu lengi megum við þá húka í umferðarteppum. Eða eftir 25 ár, árið 2040, þegar íbúunum hefur fjölgað um 70.000 eins og Hagstofan gerir ráð fyrir

Hvað eigum við að gera? Breikka vegina í borginni og byggja fleiri mislæg gatnamót! Það var talið þjóðráð í nokkra áratugi. En ekki lengur.

Lykilatriði að efla almenningssamgöngur

Verkfræðistofan Mannvit hefur undanfarin misseri unnið gagnmerkar skýrslur um úrræði í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan er mjög skýr. Ef við viljum koma í veg fyrir að bílaumferðin vaxi stöðugt í borginni, ef við viljum fyrir hvern mun komast hjá því að eyða stöðugt meiri tíma í bílnum á leið okkar um borgina, þá gagnast nákvæmlega ekkert að setja tugi milljarða í fleiri stofnbrautir fyrir bíla, mislæg gatnamót og Sundabraut.

Það sem skiptir máli til að ná árangri, segir í skýrslum Mannvits, er að efla vistvæna og hagkvæma samgöngumáta sem auka ekki álagið á stofnvegakerfi bílanna. Það þýðir að við íbúarnir þurfum að breyta ferðavenjum okkar. Þeim þarf að fjölga hlutfallslega sem kjósa að fara gangandi, hjólandi og með strætó í og úr vinnu.

En það gerist ekki nema fólk finni að það sé þægilegra, fljótlegra og ódýrara að fara á milli staða á þann hátt. Þess vegna er það lykilatriði í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins, næstu ár og áratugi, að efla almenningssamgöngur sem mest má vera, þétta byggðina og framfylgja metnaðarfullum hjólreiðaáætlunum.

Okkar vegir, okkar val

Titillinn á evrópskri samgönguviku árið 2014 er: Okkar vegir, okkar val. Hann er vel til fundinn. Umferðarkerfið má ekki bara þjóna einum tilteknum fararmáta. Vegirnir í borginni liggja til allra átta. Það er mikilvægt að halda því til haga að þetta eru vegirnir okkar allra.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×