Skoðun

Teigsskógur á vogar­skálarnar

Elín Hirst skrifar

Deilan um lagningu vegar í gegnum Teigsskóg í Austur-Barðastrandarsýslu hefur verið löng og erfið, sérstaklega fyrir heimamenn. Deilan snýst um umhverfisáhrif nýs vegarkafla í gegnum Teigsskóg, sem er fallegur birkikjarrskógur með fjölbreyttu náttúrufari og einn stærsti samfelldi skógur á Íslandi af þessari gerð. Það sama á við um áhrif á fuglalíf á svæðinu í tengslum við þverun Djúpadals og Gufudals.



Nýi vegurinn um Teigsskóg mun leysa af hólmi hættulega fjallvegi um Ódrjúgsháls og Hjallaháls. Daglega þurfa sex grunnskólabörn að fara þessa leið með rútubíl, klukkutíma hvora leið í öllum veðrum, til þess að geta sótt skóla.



Meirihluti heimamanna talar mjög skýrt. Þeir vilja fá umræddan láglendisveg um Teigsskóg sem yrði mun öruggari en núverandi hálendisvegur. Nýi vegurinn myndi enn fremur stytta leiðina milli Reykhólasveitar og Gufudalssveitar um rúma 20 kílómetra. Kostnaður við Teigsskógsleiðina er þremur milljörðum lægri en ef næsti valkostur er tekinn, sem eru jarðgöng undir Hjallaháls og Gufudalsháls. Augljóslega er hægt að nýta svo mikið fjármagn til marga góðra hluta svo sem til samgöngubóta á Vestfjörðum og annars staðar.



Ég tel mig umhverfissinna og vil vernda einstaka náttúru Íslands. En ég geri mér líka grein fyrir því að öruggar og góðar samgöngur eru höfuðatriði fyrir hinar dreifðu byggðir landsins. Stjórnmál snúast í mínum huga ekki síst um það að velja þá leið sem er réttust og skynsamlegust fyrir samfélagið í heild. Ef við leggjum á vogarskálarnar atriði sem mæla með og á móti umræddum vegi, þá tel ég að Teigsskógurinn verði fyrir það litlum umhverfisáhrifum að ég get samþykkt það miðað við hvað er í húfi fyrir heimamenn og aðra sem þurfa að fara um svæðið. Mín skoðun er enn fremur sú að Vegagerðin búi yfir þeirri faglegu kunnáttu í þverun fjarða að leirurnar í Gufufirði og Djúpafirði og þar með fuglalíf, verði ekki fyrir óæskilegum umhverfisáhrifum. Niðurstaða mín er því tvímælalaust sú að ráðast beri í þessa vegarlagningu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×