Skoðun

Alþingi ekki í jólafrí fyrr en samningar nást við lækna

Jón Þór Ólafsson skrifar
Það er afgerandi vilji landsmanna að forgangsraða sínu skattfé í heilbrigðiskerfið eins og fram kemur í könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir þingflokk Pírata í nóvember. Þetta á við alla aldursflokka, alla tekjuflokka, kjósendur allra flokka og úr öllum kjördæmum, konur og karla. Meira en 90% landsmanna setja heilbrigðiskerfið í fyrsta eða annað sæti málaflokka á fjárlögum. Næst á eftir eru menntamál með 44%. Þingmenn ræða þessa dagana forgangsröðun skattfjár í fjárlögum fyrir næsta ár.

Stjórnmálaályktun 41. landsfundar Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir síðustu kosningarnar er sammála þessari forgangsröðun og segir að það skuli „leggja skattfé fyrst í þau verkefni sem eru brýn og áríðandi“ og nefnir þar fyrst: „Örugg heilbrigðisþjónusta.“

Í stefnuskrá XD í síðustu kosningum var kafli um heilbrigðismál sem sagði það vera leiðarljós „að heilbrigðisstarfsfólkið okkar eru hin raunverulegu verðmæti heilbrigðiskerfisins“.

Kosningaloforð XB fyrir kosningar í heilbrigðismálum voru að leggja ríka áherslu á „að verðmæti heilbrigðisþjónustunnar felst fyrst og fremst í mannauðnum og því þarf að bæta starfsumhverfi og kjör heilbrigðisstétta og draga þannig úr brotthvarfi innan stéttarinnar.“

Stjórnarsáttmáli flokkanna segir svo: „Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd.“

Læknar eru langþreyttir og hafa í fyrsta skipti í sögu landsins farið í verkfall. Við landsmenn stöndum frammi fyrir miklu brotthvarfi þeirra og minna öryggi í heilbrigðismálum. Lítil von er meðal lækna um að það takist að semja. Margir gjörgæslulæknar ætla að segja upp um áramót ef ekki tekst að semja.

Eftir gefin kosningaloforð, alvöru ástandsins og skýran vilja kjósenda allra flokka þá eiga þingmenn ekki að fara í jólafrí fyrr en samningar nást við lækna.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×