Skoðun

Framsókn mannréttinda

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Vitundarvakning meðal ungs fólks um hefndarklám, heimildarmynd um fátækt á Íslandi, námskeið til að auka samfélagsvitund ungra Víetnama, átak gegn fordómum um psoriasis, skráning sögu hælisleitenda á Íslandi, námskeið fyrir fatlaðar stelpur og þýðing og talsetning á teiknimynd þar sem aðalpersónan er samkynhneigð voru meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í lok síðasta árs. Ráðinu bárust 33 umsóknir frá einstaklingum og félagasamtökum í haust, en 18 verkefni hlutu styrkveitingu að þessu sinni. Um er að ræða styrki til verkefna sem samræmast mannréttindastefnu borgarinnar og ætlað er að stuðla að jafnræði borgarbúa og farsælu og fjölbreytilegu mannlífi.

Mörg sveitarfélög bjóða upp á að íbúar og grasrótarsamtök leiti til þeirra með ósk um styrkveitingu í tiltekin verkefni sem ætlað er að bæta mannlífið með einhverjum hætti. Í Reykjavík eru árlega veittir styrkir til ýmissa verkefna, meðal annars á sviði velferðarmála, íþrótta- og æskulýðsmála, menningarmála og mannréttindamála. Á flestum sviðum eru styrkir einungis veittir árlega og umsóknarfrestur þá á haustin, en mannréttindaráð úthlutar styrkjum tvisvar á ári, bæði á haustin og vorin.

Á undanförnum árum hafa fjölmargir einstaklingar og félagasamtök sótt um styrki vegna ólíkra verkefna sem snúa að mannréttindum til mannréttindaráðs borgarinnar. Verkefni sem hefðu mörg hver ekki komist á legg nema vegna styrkveitinga ráðsins. Ljóst má vera að innan grasrótarinnar er fullt af hugmyndaríku hugsjónafólki sem vill vinna gegn mismunun svo allir fái notið sjálfsagðra mannréttinda og bæta samfélagið með fjölbreyttum verkefnum. Til að styðja við gerjun og áframhaldandi þróun slíkra verkefna mun mannréttindaráð áfram veita styrki til slíkra verkefna.

Nú styttist í næstu styrkveitingu ráðsins og verður auglýst eftir almennum styrkumsóknum nú í mars. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér málin og sækja um, en allar helstu upplýsingar má finna á vefslóðinni reykjavik.is/styrkir. Það er von mín að mannréttindaráði haldi áfram að berast ólíkar og spennandi umsóknir frá borgarbúum svo borgin geti áfram blómstrað á sviði jafnræðis og mannréttinda.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×