Stjórnin náði ekki markmiðum sínum Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 30. júní 2015 07:00 Skýrsla Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um stóru skuldaniðurfærsluna, sem opinberlega heitir lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, er um margt athyglisvert plagg. Heildarupphæð aðgerðarinnar nemur 100 milljörðum króna. Af þeim voru 80 milljarðar í framlög, umsýslu- og fjármagnskostnað, en 20 eru framtíðartekjur við útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar sem ríkissjóður afsalaði sér með aðgerðunum. Sem sagt; 100 milljarðar fóru úr ríkissjóði til, já, til hverra? Því svarar skýrslan. Þess ber fyrst að geta að þeir tekjuhæstu fengu mest. Meðallækkun á höfuðstól var mest hjá tveimur efstu tekjutíundunum. Kannski er eðlilegt að fólkið sem á mesta peningana skuldi mest, þar sem það getur keypt sér dýrustu húsin. Og þó, fólkið sem á mestu peningana þarf kannski síst á lánum að halda, hvað þá niðurfellingum. Hlutfallslega flestir sem fengu lækkun eru á aldrinum 46 til 55 ára, enda sóttu hlutfallslega flestir á þessu aldursbili um niðurfellinguna. Skuldir þessa hóps lækkuðu að meðaltali um 1.360 þúsund krónur, rétt rúmlega 1,3 milljónir sem sagt. Yngsti hópurinn, sá undir 35 ára aldri, fékk hins vegar lægstu skuldalækkunina, að meðaltali tæpar 950 þúsund krónur. Skýrsla Bjarna Benediktssonar verður vonandi til þess að færa umræðuna um skuldaniðurfellinguna á hærra plan. Nú þarf ekki lengur að rífast um hverjir nutu peninganna úr sameiginlegu sjóðunum, það er allt svart á hvítu. Það er síðan pólitískt álitamál hvort menn telja þeim sameiginlegu peningum best varið í að gefa þeim sem eiga íbúðir þá; óháð efnahag þeirra. Einhver hefði til dæmis getað sagt að það mundi nýtast fleirum að greiða niður skuldir ríkissjóðs með þessum 100 milljörðum. Tja eða byggja nýjan spítala allra landsmanna. Ýmislegt má dunda sér við fyrir 100 milljarða annað en að gefa þeim sem nóg eiga fyrir dágóðan slatta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Því er það þrátuggið hér að um sameiginlega sjóði landsmanna er að ræða því að það var alls ekki það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlaði sér. Skuldaniðurfellingunni er lofað í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar með þessum orðum: „Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín…“ Hvað sem fólki finnst um skuldaniðurfellinguna er morgunljóst að ríkisstjórnin náði ekki þessu markmiði sínu. Hún fór aðrar leiðir við fjármögnun niðurfellingar skulda hluta landsmanna. Þeir peningar voru ekki sóttir til kröfuhafa föllnu bankanna heldur fann ríkisstjórnin þá í sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ríkisstjórnin verður síðan að standa og falla með þeirri ákvörðun sinni gagnvart kjósendum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Veldu Viðreisn Katrín Sigríður J Steingrímsdóttir Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Reikningskúnstir Ragnars Þórs Björn Leví Gunnarsson Skoðun
Skýrsla Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um stóru skuldaniðurfærsluna, sem opinberlega heitir lækkun höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána, er um margt athyglisvert plagg. Heildarupphæð aðgerðarinnar nemur 100 milljörðum króna. Af þeim voru 80 milljarðar í framlög, umsýslu- og fjármagnskostnað, en 20 eru framtíðartekjur við útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar sem ríkissjóður afsalaði sér með aðgerðunum. Sem sagt; 100 milljarðar fóru úr ríkissjóði til, já, til hverra? Því svarar skýrslan. Þess ber fyrst að geta að þeir tekjuhæstu fengu mest. Meðallækkun á höfuðstól var mest hjá tveimur efstu tekjutíundunum. Kannski er eðlilegt að fólkið sem á mesta peningana skuldi mest, þar sem það getur keypt sér dýrustu húsin. Og þó, fólkið sem á mestu peningana þarf kannski síst á lánum að halda, hvað þá niðurfellingum. Hlutfallslega flestir sem fengu lækkun eru á aldrinum 46 til 55 ára, enda sóttu hlutfallslega flestir á þessu aldursbili um niðurfellinguna. Skuldir þessa hóps lækkuðu að meðaltali um 1.360 þúsund krónur, rétt rúmlega 1,3 milljónir sem sagt. Yngsti hópurinn, sá undir 35 ára aldri, fékk hins vegar lægstu skuldalækkunina, að meðaltali tæpar 950 þúsund krónur. Skýrsla Bjarna Benediktssonar verður vonandi til þess að færa umræðuna um skuldaniðurfellinguna á hærra plan. Nú þarf ekki lengur að rífast um hverjir nutu peninganna úr sameiginlegu sjóðunum, það er allt svart á hvítu. Það er síðan pólitískt álitamál hvort menn telja þeim sameiginlegu peningum best varið í að gefa þeim sem eiga íbúðir þá; óháð efnahag þeirra. Einhver hefði til dæmis getað sagt að það mundi nýtast fleirum að greiða niður skuldir ríkissjóðs með þessum 100 milljörðum. Tja eða byggja nýjan spítala allra landsmanna. Ýmislegt má dunda sér við fyrir 100 milljarða annað en að gefa þeim sem nóg eiga fyrir dágóðan slatta úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Því er það þrátuggið hér að um sameiginlega sjóði landsmanna er að ræða því að það var alls ekki það sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætlaði sér. Skuldaniðurfellingunni er lofað í stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar með þessum orðum: „Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín…“ Hvað sem fólki finnst um skuldaniðurfellinguna er morgunljóst að ríkisstjórnin náði ekki þessu markmiði sínu. Hún fór aðrar leiðir við fjármögnun niðurfellingar skulda hluta landsmanna. Þeir peningar voru ekki sóttir til kröfuhafa föllnu bankanna heldur fann ríkisstjórnin þá í sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ríkisstjórnin verður síðan að standa og falla með þeirri ákvörðun sinni gagnvart kjósendum.