Skoðun

Á enginn að bera ábyrgð á sölu ríkiseigna?

Árni Páll Árnason skrifar
Nýlegar fréttir af gríðarlegum hagnaði þeirra stálheppnu, sérvöldu kaupahéðna sem fengu einir að bjóða í hlut Landsbankans í Borgun í lok árs 2014 staðfesta áfellisdóm yfir þeirri aðferð sem bankinn valdi til sölu á þessum eignum. Þessi kaup stefna hraðbyri í að teljast kaup aldarinnar í íslensku viðskiptalífi. Bankinn hefur ekki borið fram trúverðugar skýringar á þeirri leið sem valin var við söluna, né því hvers vegna bankinn greindi ekki þau gríðarlegu hagnaðartækifæri sem Borgun hefur boðið nýjum eigendum upp á. Bankinn tryggði sér ekki aðgang að þessum gríðarlegu greiðslum sem fyrirtækið mun nú að óbreyttu fá, eins og hann þó gerði við söluna á eignarhlut í Valitor á svipuðum tíma. Ef þetta er ekki spilling, er þetta fordæmalaust klúður. Hvorugt getur verið óátalið.

Rannsókn nauðsynleg

Það er góð spurning hvernig hægt sé að endurreisa traust á starfsháttum Landsbankans í ljósi þessa. Yfirstjórn bankans og Bankasýslan hljóta að taka það til athugunar, sem og Fjármálaeftirlitið. Ég vil að Alþingi sinni eftirlitshlutverki sínu og beiti þeim rannsóknarheimildum sem þingið hefur.

Ábyrgðarleysiskúltúr

Það verður að rannsaka þetta mál, því það þarf að draga af því lærdóm. Fram undan er gríðarleg sala ríkiseigna og þá megum við ekki við nýju Borgunarhneyksli. Stærstur hluti bankakerfisins er nú að falla í hendur ríkisins og gert er ráð fyrir að Eignasafn Seðlabankans (ESÍ) taki yfir um 60 milljarða eignir frá kröfuhöfum og komi þeim í verð. Í nýju frumvarpi fjármálaráðherra er einhverra hluta vegna gert ráð fyrir að stjórn þess eignarhaldsfélags njóti ábyrgðarleysis og að einstakir starfsmenn geti tekið ákvarðanir um sölu eigna sem nemur allt að einum milljarði króna, án sérstaks samþykkis.

Borgunarhneykslið kallar á endurmat á þessu víðtæka ábyrgðarleysi. Við verðum að hemja þennan ábyrgðarleysiskúltúr og búa til fastari og agaðri umgjörð um sölu ríkiseigna. Enginn sem fer með sölu almannaeigna á að geta skýlt sér á bak við ábyrgðarleysi að lögum. Um það ættum við öll að sameinast.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×