Skoðun

Rammaáætlun og góð lögfræði

Tryggvi Felixson skrifar
Orkumálastjóri grípur þann 17. mars 2016 til andsvara við grein minni í Fréttablaðinu 3. mars og fullyrðir að ég „afflytji texta og innihald laga um Rammaáætlun þannig að það henti mínum málstað“.

Sú staðreynd að deilt er um merkingu laga um verndar- og orkunýtingaráætlun bendir til þess að þau hefðu mátt vera skýrari. Líklega getum við orkumálastjóri sammælst um það.

Á hinn bóginn er það afleit hugmynd að Orkustofnun geti ákveðið að skoða beri virkjanir á svæðum sem Alþingi hefur ákveðið að skuli fara í friðlýsingarferli. Málflutningur sem upphefur valdsvið Orkustofnunar í vinnu við rammaáætlun og sem endavendir ákvörðunum Alþings er ekki sannfærandi.

Það er grundvallaregla rammaáætlunar að svæði sem fara í verndar­flokk verði ekki tilefni til frekari átaka gagnvart virkjunar­áformum. Þetta kemur skýrlega fram í 3 gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þar segir að með áætluninni sé „mótuð stefna um hvort landsvæði þar sem er að finna virkjunarkosti megi nýta til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa það eða kanna frekar“. Verði ekki eftir þessum fyrirmælum laganna farið bresta forsendur ramma­áætlunar.

Verkefnisstjórn er ráðgjafandi nefnd sem skal byggja sínar tillögur á faglegu mati á upplýsingum. Orkustofnun skal sjá til þess að virkjunartillögur uppfylli tiltekin skilyrði sem geri þær matshæfar. Þegar verkefnisstjórn skilar af sér hefst pólitísk meðferð á tillögum verkefnisstjórnar sem lýkur með ályktun Alþingis. Þannig skal tryggja lýðræðislega ákvörðun í kjölfar faglegrar umfjöllunar. Hefði Alþingi valið þá leið sem orkumálastjóri lýsir eftir, skapast algjör óvissa um friðlýsingarferlin sem Alþingi hefur samþykkt. Þar með hefði löggjafinn stofnað til meiri vanda en hann vildi leysa.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×