Skoðun

Hvert stefnir?

Ari Trausti Guðmundsson skrifar
Stjórnmálamönnum ber að að halda trúnaði við umbjóðendur sína og samfélagið og nú hafa nokkrir þeirra brugðist traustinu - einn þeirra sýnu verst og mest. Nokkrar misvænlegar leiðir eru færar til að lágmarka skaðann, hér innanlands jafnt sem utan landsins - þá gildir að yfirvegun og sanngirni ráði.

Ég skora á allt frjálslynt og félagslega sinnað fólk um að ná sem mestri samstöðu þar um. Það tekur töluverðan tíma - jafnvel allmörg ár - að rétta kúrsinn af og þoka samfélaginu til margaukins jöfnuðar og minni (geldrar) markaðshyggju - hvað þá sjálfbærni sem framtíðin veltur á.

Alþýða manna á betra skilið

Alþýða manna - allir þeir sem vinna eða þjóna fyrir sér og sínum í sveita síns andlits - á annað og betra skilið en 607 aflandsmenn, auk bankstera, fjárglæframanna og hönnuða kollsteypunnar 2008. Fjöldinn ber auðvitað ábyrgð á eigin framtíð og verður að finna henni leið um fulltrúalýðræði og með samræðu.

Á Íslandi er stjórnkerfi sem nefnist þingbundið lýðræði enn við lýði og ekkert sólóútspil einstaklinga á að vera í boði - einhvers konar gerræði sem á að bjarga málum. Heldur ekki stjórnlaus reiði stórra hópa. Munum líka að bak við einstaklinga eru jafnan fjölskyldur, vinir og samstarfsmenn sem geta harmað atburðarásir og hafa lítt eða ekkert með þær að gera. Mannúð kostar umhugsun.

Styrkur frjálsrar upplýsingamiðlunar

Að þessu sinni sýndu íslenskir og alþjóðlegir fjölmiðlar styrk frjálsrar upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta og ber að þakka það - um leið og við höfnum síendurteknum tilraunum til að sverta þá með ásökunum um sviðsettar og tilhæfulausar árásir á stjórnmálamenn. Rökstudd gagnrýni er góð en hana sjáum við allt of sjaldan.

Í annað sinn á einum áratug hriktir í samfélaginu svo um munar. Erum við mannskapur til að fást við það svo vel fari?




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×