Skoðun

Að stíga út úr skjóli

Árni Páll Árnason skrifar
Ríkisstjórnin er nú rúin trausti. Forsætisráðherra hefur ekki upplýst um hagsmuni sína, sem máli gátu skipt við meðferð brýnna þjóðarhagsmuna. Fjármálaráðherra er tvísaga um eignir í erlendum skattaskjólum.

Á alþjóðavettvangi hafa vestræn ríki barist af hörku gegn skattaskjólum og Ísland hefur tekið þátt í þeirri baráttu.

Það er einsdæmi að forysta ríkisstjórnar vestræns lýðræðisríkis eigi eignir í slíkum skjólum og það verður þjóðinni ekki til vegsauka. Þar fyrir utan er það birtingarmynd þeirrar staðreyndar að forysta stjórnarflokkanna deilir ekki kjörum með þjóðinni.

Fréttir sem birst hafa undanfarna daga sýna að upplýsingum var leynt fyrir þjóðinni fyrir síðustu kosningar.

Þegar þing hefst á ný í næstu viku munu þingmenn stjórnarmeirihlutans þurfa að svara þeirri spurningu hvort þeir treysti sér til að hitta kjósendur sína eða hvort þeir ætla að hreiðra um sig með forystumönnunum í skjólinu.

Okkar ábyrgð er að tryggja að stjórnkerfið taki þetta mál og rannsaki. Þess vegna hef ég fyrir hönd okkar í stjórnarandstöðunni óskað eftir fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, með umboðsmanni Alþingis, til að fara yfir hæfi forsætisráðherra til að vinna að samningum við kröfuhafa þegar hann sat beggja vegna borðsins. Við þurfum líka að fá skýr svör frá fjármálaráðherra um af hverju í ósköpunum forsætisráðherra landsins þurfti einn manna ekki að uppfylla neinar trúnaðarskyldur vegna afnámsferlisins, eða af hverju fjármálaráðherrann krafði hann og aðra þá sem unnið hafa að afnámi hafta ekki um að þeir gerðu grein fyrir hagsmunum sínum af niðurstöðunni.

Við þurfum forystu sem treystir sér til að koma hreint fram og hafa allt uppi á borðum. Forystu sem deilir kjörum með þjóðinni. Ekki forystu sem sífellt flækist úr einu skjóli í annað.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×