Skoðun

Hefðbundinn skotgrafahernaður

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Í grein í Fréttablaðinu 29. júní ítrekar iðnaðar- og viðskiptaráðherra áhugaleysi sitt á opinberri þjónustu við almenning. Ég og ráðherrann erum sammála um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðarbúið, en það skilur á milli þegar kemur að því að afla tekna af ferðamönnum til að standa undir notkun þeirra á almannaþjónustu. Ráðherrann vill meina að ég standi fyrir hefðbundinni vinstrimennsku þegar ég legg til að við öflum meiri tekna til að standa undir nauðsynlegri uppbyggingu. Ég tel hins vegar að um heilbrigða skynsemi sé að ræða og að með tillögunni sé gætt að brýnum hagsmunum þjóðarinnar.

Ráðherra segist hafa mótað stefnu og stofnsett Stjórnstöð ferðamála. Það er bara ekki nóg til að takast á við áður óþekkta fjölgun ferðamanna. Við þurfum aðgerðir til að mæta gjörbreyttum aðstæðum. Aðgerðarleysi iðnaðar- og viðskiptaráðherra býður upp á aukinn átroðning, skort á hreinlætisaðstöðu, aukið álag á bráðamóttöku, sjúkraflutninga, lögreglu og hjálparsveitir og hærri slysatíðni bæði á vegum og á ferðamannastöðum.

Það er í raun undarlegt að ráðherrann telji að það þurfi ekki að afla frekari tekna því hún mælti sjálf fyrir náttúrupassanum sáluga einmitt til að afla frekari tekna af ferðamönnum. Gjaldtakan sem Ragnheiður Elín mælti fyrir var flókin og óaðgengileg enda komst frumvarpið ekki einu sinni til 2. umræðu í þinginu. Hugmynd mín um að færa virðisaukaskatt á gistingu úr neðra þrepi í almennt þrep er einföld aðgerð með skýru lagaumhverfi sem gæti skilað 10 milljörðum árlega í auknar tekjur.

Stærsta atvinnugrein þjóðarinnar sem byggir afkomu á einstakri náttúru Íslands þarf að leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. Öðruvísi verður ekki sátt um starfsumhverfi hennar. Ný ríkistjórn verður að tryggja betri vegi, sterkari heilbrigðisþjónustu og ekki síst öryggi og ánægju ferðamanna. Staðan er alvarleg en núverandi ráðherra ferðamála býður okkur upp á hefðbundinn skotgrafahernað í stað raunhæfra lausna.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×