Föstudagsviðtalið: Segir þvælu að önnur lögmál gildi í netheimum en mannheimum Fanney Birna Jónsdóttir og Ólöf Skaftadóttir skrifa 29. júlí 2016 05:00 Jakob Frímann Magnússon. vísir/stefán Jakob Frímann Magnússon er maður eigi einhamur. Hann er Stuðmaður, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar og stjórnarformaður STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, svo fátt eitt sé nefnt. Sambandið, ásamt öðrum aðilum, lagði á dögunum fram kæru á hendur einstaklingi sem stendur að baki skráaskiptasíðunni Deildu.net, þar sem finna má ógrynni af íslensku höfundaréttarvörðu efni, bæði tónlist og sjónvarpsefni. Jakob telur það afar mikilvægt að stöðva ólöglegt niðurhal sem hann segir vera glæp, sem sé ekkert frábrugðinn öðrum glæpum.Svona kæra hefur verið lögð fram áður, en samt heldur ólöglega niðurhalið áfram. Heldur þú að þetta verði eitthvað öðruvísi núna? „Við höfum náð fram hæstaréttardómi á svona skúrka og það hefur verið fordæmisgefandi. Þetta er blygðunarlaus tilraun til þess að kópera annarra manna verk, dreifa þeim og hagnast á því sjálfur, beint og óbeint. Það eru gripdeildir og svoleiðis hagar sér bara óheiðarlegt fólk.“Svarar ekki kostnaðiEn kemur ekki bara upp enn önnur svona síða? Og svo önnur á eftir henni? „Vafalítið, en ef við ætlum að gefast upp fyrir öllum gripdeildum og tilraunum til glæpa þá væri samfélagið dálítið brogaðra. Við veitum viðnám eftir bestu getu. Það er ekkert launungarmál að sú tæknibylting sem varð með alnetinu hefur skert verulega möguleika tónlistarfólks til að selja hljómrit sín, eins og hljómplötur og geisladiska sem voru aðaltekjulindin um áratugaskeið. Nú er það liðin tíð og tónlistin komin inn á rafrænar veitur að miklu leyti, á borð við Spotify og sambærilegar þjónustur, sem því miður hafa verið frábærar viðskiptahugmyndir fyrir stofnendur, eigendur, lykilstjórnendur og einstaka risarétthafa. En fyrir okkur í STEF svarar það varla kostnaði að dreifa höfundaréttargjöldunum frá þessum tónlistarveitum. Það kostar í rauninni meira að dreifa þeim á þær þúsundir íslenskra höfunda sem um ræðir heldur en upphæðin nemur sem við fáum á ári hverju.“Skerða réttindi stéttarinnar Jakob segir það viðvarandi verkefni hjá STEF að reyna að bæta samninga við þessi fyrirtæki, en slíkt þurfi að vinna á alþjóðavettvangi. „Höfundarétturinn er evrópskt fyrirbrigði, almennt kenndur við Frakkland og er vel varinn af Bernarsáttmála. Það er fyrst núna við svona ótrúlega háar mælingar á Pírötum á Íslandi að hugmyndin um að afnema höfundaréttinn er til umræðu yfirhöfuð. Það er hvergi annars staðar í heiminum verið að tala á þeim nótum og það er enginn flokkur sem ég veit um í Íslandssögunni sem hefur sett sér það markmið að skerða réttindi tiltekinnar stéttar í landinu. Ísland er þekktara af hugverkamönnum sínum en nokkru öðru frá því byggð hófst og flokkurinn sem mælist stærstur í dag hefur það á stefnuskrá sinni að stytta höfundaréttinn úr 70 árum í 20 ár, að endurskoða hann og þá sérstaklega sæmdarréttinn sem er kjarni höfundaréttarins. Og þetta er liðið sem hefur það númer eitt á stefnuskránni að fara að fikta í stjórnarskránni, ég segi nei takk. Ég vil ekki að þetta fólk fari að fikta í stjórnarskránni minni. Bara alls ekki.“Sömu lögmálEn þarf ekki að ræða þessi mál og þá erfiðleika sem höfundarétturinn er að glíma við með tilkomu internetsins? Er nokkur annar flokkur að ræða þetta en Píratarnir? „Þeir fóru fram með þetta af því að það fór í taugarnar á þeim að geta ekki vaðið í annarra manna hugverk og fiktað í þeim. Rökin voru: það heftir sköpun að geta ekki tekið lagið þitt, Jakob, og remixað það, gert eitthvað við það. Jú, jú, það má remixa lagið mitt í samráði við mig og þá á ég hlutdeild í laginu. Það hefur margoft verið gert. En þú ferð ekki og tekur það bara sisvona.“ Hann segir Pírata einnig halda því fram að það gildi einhver önnur lögmál í netheimum en mannheimum. „Sem er náttúrulega bara þvæla. Hvað þá með netbankana og öll önnur netviðskipti? Bara sem dæmi: Sönn íslensk sakamál, sería sem mjög vel var vandað til, var höluð niður ólöglega 90 þúsund sinnum, Laddi með ævistarfið undir, 50 þúsund, Steindi Jr. með nýja seríu, 5 þúsund niðurhöl á fyrsta sólarhring og svo mætti lengi telja. Þarna er verið að grafa undan möguleikum til dagskrárgerðar og menningarstarfsemi.“Ekki erfitt að fylgja lögumEn þurfa listamenn ekki bara að búa til leiðir sem gera fólki kleift að nálgast efnið þeirra með löglegum hætti? „Það er ekkert erfitt að gera þetta löglega. Það er ekki erfitt að fara inn á Tónlist.is, það er ekki erfitt að fara inn á Spotify, það er ekki erfitt að kaupa sér löglega hvort sem er kvikmynd eða tónlist. Það sem er erfitt er ef það er verið að ala upp kynslóð eftir kynslóð þannig að það að taka ófrjálsri hendi annarra manna verk, sem eru varin af stjórnarskrárbundnum eignarrétti, sé eðlilegt, nú, þá er verið að kenna börnum að það sé allt í lagi að fara í sælgætisrekkann í Hagkaupum og taka poppið þar líka ófrjálsri hendi. Þetta snýst bara um grundvallarprinsipp í mannlegu samfélagi, virðingu fyrir vinnu og lifibrauði annarra. Við skulum standa vörð um það, við skulum ekki vera að hvetja til ólöglegrar nálgunar við slíkt efni. Það er hægt að stela blöðum úr hillum í bókabúðum, en okkur finnst það ekkert sjálfsagt. En hitt er fyrir sumum okkar farið að vera eins og sjálfsagður og eðlilegur hlutur. Við því erum við að sporna.“Flókið umfjöllunarefniHafa stjórnvöld þá verið að draga lappirnar í að gera eitthvað í þessu? Þarf að marka hér betri stefnu í þessum málum? „Það má alveg segja sem svo að höfundaréttur sé kannski að sumu leyti flókið og sérhæft umfjöllunarefni. Og það er alveg ljóst að meirihluti þingmanna er sennilega ekkert sérlega vel inni í höfundaréttinum.“ Jakob er ánægður með sitjandi stjórnvöld þegar kemur að höfundarétti og baráttu listamanna. „Það mega þó þeir flokkar sem sitja við stjórnvölinn í dag eiga að þeir hafa hlustað og tekið þetta alvarlega. Settur var á fót starfshópur sem ég og fleiri eru í. Nú liggur fyrir alveg skýr stefna um það sem gera þarf. Innan lögreglunnar þarf starfssvið sem tekur á þessu. Ekki sem hluta af almennum netglæpum eða efnahagsbrotum, þá lenda þau bara neðst í bunkanum, heldur bara sem konkret eftirlit. Þannig að farið verði eins með þá sem hlaða niður efni ólöglega og aðra sem haga sér ólöglega. Það er enginn munur.“Fátt um svörHefur þú aldrei rætt þetta beint við Píratana? Birgittu Jónsdóttur eða Helga Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata? „Ég hef einu sinn verið á fundi með þeim og ég lagði þetta þá upp á kannski óþarflega nærgöngulan hátt. Ég sagði bara við Birgittu á þeim tíma; Nú var móðir þín þekkt og virt söngvaskáld og þú hefur væntanlega erft hennar hugverkarétt og leigutekjur af hennar verkum. Væntanlega hefur þú erft föður þinn líka og þær eignir sem hann átti og kannski leigutekjur af þeim. Ertu að segja mér að þú viljir gefa eftir leigutekjurnar af móðurarfinum en ekki föðurarfinum, eða kannski hvort tveggja? Á að þjóðnýta kannski allt saman? Þá var nú fátt um svör.“Mun ekki farnast vel Jakob segist telja að Píratar séu ekki búnir að hugsa málin alveg til enda. „En þau eru að átta sig á því að þetta er mjög eldfimt og í aðdraganda kosninga er ekki klókt að fá alla hugverkastéttina og hinar skapandi greinar á móti sér. Í vor var skýrt á stefnuskrá Pírata að þau ætluðu að takmarka höfundarétt við 20 ár en ekki 70 ár og endurskoða höfundaréttinn og sæmdarréttinn, væntanlega með þrengingar í huga. Núna tveimur mánuðum síðar sést ekkert um þetta hjá þeim. Það er varla að orðið höfundaréttur sé nefnt inni á heimasíðunni. Ég hef kallað eftir svörum við þessu; hafa orðið vatnaskil í stefnu Pírata? Það hefði orðið saga til næsta bæjar ef Framsóknarflokkurinn væri hættur að veita landbúnaðinum atfylgi sitt og Sjálfstæðisflokkurinn léti sig sjávarútveginn einu gilda. Það væru forsíðufréttir, og þetta er sannarlega stórfrétt ef sönn reynist. Það hefur ekki tekist að fá svör. Ég vona að þau fáist. En þó að það kæmi fram að þetta sé ekki á dagskrá núna þá hef ég fulla ástæðu til tortryggni og þess að treysta þeim ekki til þess að fara að fikta í stjórnarskránni því þar er nú eignarrétturinn eitt af grunngildunum.“Milljarða tapHvert er tap listamanna af ólöglegu niðurhali? „Þegar allt er talið þá er þetta í milljörðum í stóra samhenginu, því þetta eru ekki bara innlendir, þetta eru erlendir listamenn líka. Við erum ábyrg fyrir öllu sem fer til allra höfunda í heiminum. Og þetta eru náttúrulega alveg stórkostlegar fjárhæðir sem þarna eru að fara í súginn, bæði í hljóðtíðninni og myndtíðninni.“En þyrfti ekki gríðarlegan mannafla að baki eftirliti með þessu, til dæmis hjá lögreglunni, ef það ætti að fylgjast með öllu ólöglegu niðurhali?„Jú, en í alvöru eftirlitskerfi þar sem eru innheimtar miklar fjárhæðir þá stendur það undir sér og vel það.“ Jakob segir að löndin í kringum okkur séu mörg hver hörð á þessu. Í Þýskalandi til að mynda varði það háum sektum sé fólk gripið við þessa ólöglegu iðju. „Punkturinn er sá að að baki einni breiðskífu liggja hundruð ef ekki þúsundir vinnustunda hjá fjölda fólks með kannski umtalsverða menntun og reynslu að baki og hljóðver og hönnun, útsetjara og pródúsenta og allt þetta. Þú verður að viðhalda forsendum þess að þessi iðnaður, þessi framleiðsla sé möguleg.“Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. Föstudagsviðtalið Mest lesið Ása hyggst selja húsið og flytur ásamt börnum sínum Erlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Læknar á lokastigi og nýr taktur hjá kennurum Innlent Ráku háttsettan herforingja sem sakaður var um lygar Erlent Sundhnúksgígaröðin að verða búin Innlent Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim Innlent Ögurstund runnin upp í Karphúsinu Innlent Fjölskyldan brást vel við nýju húðflúri þingmannsins Innlent Enginn drukkinn jólasveinn í jólaþorpi Hafnarfjarðar Innlent Vinstrið muni bera sigur úr býtum að öllu óbreyttu Innlent Fleiri fréttir Frægasti köttur landsins týndur Enginn drukkinn jólasveinn í jólaþorpi Hafnarfjarðar Engar ruslatunnur í Grindavík Kapphlaup við tímann í Karphúsinu og eggjaskortur í aðdraganda jóla Í símanum undir stýri og bíllinn mikið skemmdur Læknar á lokastigi og nýr taktur hjá kennurum Biskup fagnar hækkun sóknargjalda Sundhnúksgígaröðin að verða búin Vinstrið muni bera sigur úr býtum að öllu óbreyttu Breyting á eldgosinu og stór dagur í Karphúsinu Ögurstund runnin upp í Karphúsinu Fjölskyldan brást vel við nýju húðflúri þingmannsins Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim Minni virkni í miðgígnum Vextir og kosningar í Sprengisandi Réttindalausir stútar á ferðinni Engar sýnilegar breytingar á hraunflæði eða krafti Ók á ljósastaur við Grensásveg Eldur kviknaði í bíl í Mosfellsbæ Læknar fara þokkalega bjartsýnir inn í morgundaginn Viðreisn stærst samkvæmt nýrri kosningaspá en mjótt á munum Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til niðurskurð á hverju ári Hefur gefið Landgræðslunni 26 milljónir króna í formi fræja Mikilvægt að Bláa lónið geti opnað sem fyrst Hvetja íbúa Suðurnesja til að spara heita vatnið Varnaraðgerðir í Svartsengi og umdeild yfirhalning hjá Jaguar Ísland virðir handtökuskipan á hendur Netanjahú Fjölmiðlabann í kjaradeilu kennara Hildur hnýtir í Sigurð og sakar hann um ýkjur Straumar valda álagi á varnargarða og staðan viðkvæm Sjá meira
Jakob Frímann Magnússon er maður eigi einhamur. Hann er Stuðmaður, framkvæmdastjóri Miðborgarinnar okkar og stjórnarformaður STEF, Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar, svo fátt eitt sé nefnt. Sambandið, ásamt öðrum aðilum, lagði á dögunum fram kæru á hendur einstaklingi sem stendur að baki skráaskiptasíðunni Deildu.net, þar sem finna má ógrynni af íslensku höfundaréttarvörðu efni, bæði tónlist og sjónvarpsefni. Jakob telur það afar mikilvægt að stöðva ólöglegt niðurhal sem hann segir vera glæp, sem sé ekkert frábrugðinn öðrum glæpum.Svona kæra hefur verið lögð fram áður, en samt heldur ólöglega niðurhalið áfram. Heldur þú að þetta verði eitthvað öðruvísi núna? „Við höfum náð fram hæstaréttardómi á svona skúrka og það hefur verið fordæmisgefandi. Þetta er blygðunarlaus tilraun til þess að kópera annarra manna verk, dreifa þeim og hagnast á því sjálfur, beint og óbeint. Það eru gripdeildir og svoleiðis hagar sér bara óheiðarlegt fólk.“Svarar ekki kostnaðiEn kemur ekki bara upp enn önnur svona síða? Og svo önnur á eftir henni? „Vafalítið, en ef við ætlum að gefast upp fyrir öllum gripdeildum og tilraunum til glæpa þá væri samfélagið dálítið brogaðra. Við veitum viðnám eftir bestu getu. Það er ekkert launungarmál að sú tæknibylting sem varð með alnetinu hefur skert verulega möguleika tónlistarfólks til að selja hljómrit sín, eins og hljómplötur og geisladiska sem voru aðaltekjulindin um áratugaskeið. Nú er það liðin tíð og tónlistin komin inn á rafrænar veitur að miklu leyti, á borð við Spotify og sambærilegar þjónustur, sem því miður hafa verið frábærar viðskiptahugmyndir fyrir stofnendur, eigendur, lykilstjórnendur og einstaka risarétthafa. En fyrir okkur í STEF svarar það varla kostnaði að dreifa höfundaréttargjöldunum frá þessum tónlistarveitum. Það kostar í rauninni meira að dreifa þeim á þær þúsundir íslenskra höfunda sem um ræðir heldur en upphæðin nemur sem við fáum á ári hverju.“Skerða réttindi stéttarinnar Jakob segir það viðvarandi verkefni hjá STEF að reyna að bæta samninga við þessi fyrirtæki, en slíkt þurfi að vinna á alþjóðavettvangi. „Höfundarétturinn er evrópskt fyrirbrigði, almennt kenndur við Frakkland og er vel varinn af Bernarsáttmála. Það er fyrst núna við svona ótrúlega háar mælingar á Pírötum á Íslandi að hugmyndin um að afnema höfundaréttinn er til umræðu yfirhöfuð. Það er hvergi annars staðar í heiminum verið að tala á þeim nótum og það er enginn flokkur sem ég veit um í Íslandssögunni sem hefur sett sér það markmið að skerða réttindi tiltekinnar stéttar í landinu. Ísland er þekktara af hugverkamönnum sínum en nokkru öðru frá því byggð hófst og flokkurinn sem mælist stærstur í dag hefur það á stefnuskrá sinni að stytta höfundaréttinn úr 70 árum í 20 ár, að endurskoða hann og þá sérstaklega sæmdarréttinn sem er kjarni höfundaréttarins. Og þetta er liðið sem hefur það númer eitt á stefnuskránni að fara að fikta í stjórnarskránni, ég segi nei takk. Ég vil ekki að þetta fólk fari að fikta í stjórnarskránni minni. Bara alls ekki.“Sömu lögmálEn þarf ekki að ræða þessi mál og þá erfiðleika sem höfundarétturinn er að glíma við með tilkomu internetsins? Er nokkur annar flokkur að ræða þetta en Píratarnir? „Þeir fóru fram með þetta af því að það fór í taugarnar á þeim að geta ekki vaðið í annarra manna hugverk og fiktað í þeim. Rökin voru: það heftir sköpun að geta ekki tekið lagið þitt, Jakob, og remixað það, gert eitthvað við það. Jú, jú, það má remixa lagið mitt í samráði við mig og þá á ég hlutdeild í laginu. Það hefur margoft verið gert. En þú ferð ekki og tekur það bara sisvona.“ Hann segir Pírata einnig halda því fram að það gildi einhver önnur lögmál í netheimum en mannheimum. „Sem er náttúrulega bara þvæla. Hvað þá með netbankana og öll önnur netviðskipti? Bara sem dæmi: Sönn íslensk sakamál, sería sem mjög vel var vandað til, var höluð niður ólöglega 90 þúsund sinnum, Laddi með ævistarfið undir, 50 þúsund, Steindi Jr. með nýja seríu, 5 þúsund niðurhöl á fyrsta sólarhring og svo mætti lengi telja. Þarna er verið að grafa undan möguleikum til dagskrárgerðar og menningarstarfsemi.“Ekki erfitt að fylgja lögumEn þurfa listamenn ekki bara að búa til leiðir sem gera fólki kleift að nálgast efnið þeirra með löglegum hætti? „Það er ekkert erfitt að gera þetta löglega. Það er ekki erfitt að fara inn á Tónlist.is, það er ekki erfitt að fara inn á Spotify, það er ekki erfitt að kaupa sér löglega hvort sem er kvikmynd eða tónlist. Það sem er erfitt er ef það er verið að ala upp kynslóð eftir kynslóð þannig að það að taka ófrjálsri hendi annarra manna verk, sem eru varin af stjórnarskrárbundnum eignarrétti, sé eðlilegt, nú, þá er verið að kenna börnum að það sé allt í lagi að fara í sælgætisrekkann í Hagkaupum og taka poppið þar líka ófrjálsri hendi. Þetta snýst bara um grundvallarprinsipp í mannlegu samfélagi, virðingu fyrir vinnu og lifibrauði annarra. Við skulum standa vörð um það, við skulum ekki vera að hvetja til ólöglegrar nálgunar við slíkt efni. Það er hægt að stela blöðum úr hillum í bókabúðum, en okkur finnst það ekkert sjálfsagt. En hitt er fyrir sumum okkar farið að vera eins og sjálfsagður og eðlilegur hlutur. Við því erum við að sporna.“Flókið umfjöllunarefniHafa stjórnvöld þá verið að draga lappirnar í að gera eitthvað í þessu? Þarf að marka hér betri stefnu í þessum málum? „Það má alveg segja sem svo að höfundaréttur sé kannski að sumu leyti flókið og sérhæft umfjöllunarefni. Og það er alveg ljóst að meirihluti þingmanna er sennilega ekkert sérlega vel inni í höfundaréttinum.“ Jakob er ánægður með sitjandi stjórnvöld þegar kemur að höfundarétti og baráttu listamanna. „Það mega þó þeir flokkar sem sitja við stjórnvölinn í dag eiga að þeir hafa hlustað og tekið þetta alvarlega. Settur var á fót starfshópur sem ég og fleiri eru í. Nú liggur fyrir alveg skýr stefna um það sem gera þarf. Innan lögreglunnar þarf starfssvið sem tekur á þessu. Ekki sem hluta af almennum netglæpum eða efnahagsbrotum, þá lenda þau bara neðst í bunkanum, heldur bara sem konkret eftirlit. Þannig að farið verði eins með þá sem hlaða niður efni ólöglega og aðra sem haga sér ólöglega. Það er enginn munur.“Fátt um svörHefur þú aldrei rætt þetta beint við Píratana? Birgittu Jónsdóttur eða Helga Hrafn Gunnarsson, þingmenn Pírata? „Ég hef einu sinn verið á fundi með þeim og ég lagði þetta þá upp á kannski óþarflega nærgöngulan hátt. Ég sagði bara við Birgittu á þeim tíma; Nú var móðir þín þekkt og virt söngvaskáld og þú hefur væntanlega erft hennar hugverkarétt og leigutekjur af hennar verkum. Væntanlega hefur þú erft föður þinn líka og þær eignir sem hann átti og kannski leigutekjur af þeim. Ertu að segja mér að þú viljir gefa eftir leigutekjurnar af móðurarfinum en ekki föðurarfinum, eða kannski hvort tveggja? Á að þjóðnýta kannski allt saman? Þá var nú fátt um svör.“Mun ekki farnast vel Jakob segist telja að Píratar séu ekki búnir að hugsa málin alveg til enda. „En þau eru að átta sig á því að þetta er mjög eldfimt og í aðdraganda kosninga er ekki klókt að fá alla hugverkastéttina og hinar skapandi greinar á móti sér. Í vor var skýrt á stefnuskrá Pírata að þau ætluðu að takmarka höfundarétt við 20 ár en ekki 70 ár og endurskoða höfundaréttinn og sæmdarréttinn, væntanlega með þrengingar í huga. Núna tveimur mánuðum síðar sést ekkert um þetta hjá þeim. Það er varla að orðið höfundaréttur sé nefnt inni á heimasíðunni. Ég hef kallað eftir svörum við þessu; hafa orðið vatnaskil í stefnu Pírata? Það hefði orðið saga til næsta bæjar ef Framsóknarflokkurinn væri hættur að veita landbúnaðinum atfylgi sitt og Sjálfstæðisflokkurinn léti sig sjávarútveginn einu gilda. Það væru forsíðufréttir, og þetta er sannarlega stórfrétt ef sönn reynist. Það hefur ekki tekist að fá svör. Ég vona að þau fáist. En þó að það kæmi fram að þetta sé ekki á dagskrá núna þá hef ég fulla ástæðu til tortryggni og þess að treysta þeim ekki til þess að fara að fikta í stjórnarskránni því þar er nú eignarrétturinn eitt af grunngildunum.“Milljarða tapHvert er tap listamanna af ólöglegu niðurhali? „Þegar allt er talið þá er þetta í milljörðum í stóra samhenginu, því þetta eru ekki bara innlendir, þetta eru erlendir listamenn líka. Við erum ábyrg fyrir öllu sem fer til allra höfunda í heiminum. Og þetta eru náttúrulega alveg stórkostlegar fjárhæðir sem þarna eru að fara í súginn, bæði í hljóðtíðninni og myndtíðninni.“En þyrfti ekki gríðarlegan mannafla að baki eftirliti með þessu, til dæmis hjá lögreglunni, ef það ætti að fylgjast með öllu ólöglegu niðurhali?„Jú, en í alvöru eftirlitskerfi þar sem eru innheimtar miklar fjárhæðir þá stendur það undir sér og vel það.“ Jakob segir að löndin í kringum okkur séu mörg hver hörð á þessu. Í Þýskalandi til að mynda varði það háum sektum sé fólk gripið við þessa ólöglegu iðju. „Punkturinn er sá að að baki einni breiðskífu liggja hundruð ef ekki þúsundir vinnustunda hjá fjölda fólks með kannski umtalsverða menntun og reynslu að baki og hljóðver og hönnun, útsetjara og pródúsenta og allt þetta. Þú verður að viðhalda forsendum þess að þessi iðnaður, þessi framleiðsla sé möguleg.“Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Föstudagsviðtalið Mest lesið Ása hyggst selja húsið og flytur ásamt börnum sínum Erlent Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu Innlent Læknar á lokastigi og nýr taktur hjá kennurum Innlent Ráku háttsettan herforingja sem sakaður var um lygar Erlent Sundhnúksgígaröðin að verða búin Innlent Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim Innlent Ögurstund runnin upp í Karphúsinu Innlent Fjölskyldan brást vel við nýju húðflúri þingmannsins Innlent Enginn drukkinn jólasveinn í jólaþorpi Hafnarfjarðar Innlent Vinstrið muni bera sigur úr býtum að öllu óbreyttu Innlent Fleiri fréttir Frægasti köttur landsins týndur Enginn drukkinn jólasveinn í jólaþorpi Hafnarfjarðar Engar ruslatunnur í Grindavík Kapphlaup við tímann í Karphúsinu og eggjaskortur í aðdraganda jóla Í símanum undir stýri og bíllinn mikið skemmdur Læknar á lokastigi og nýr taktur hjá kennurum Biskup fagnar hækkun sóknargjalda Sundhnúksgígaröðin að verða búin Vinstrið muni bera sigur úr býtum að öllu óbreyttu Breyting á eldgosinu og stór dagur í Karphúsinu Ögurstund runnin upp í Karphúsinu Fjölskyldan brást vel við nýju húðflúri þingmannsins Kæla öll „hraunaugu“ og loka þeim Minni virkni í miðgígnum Vextir og kosningar í Sprengisandi Réttindalausir stútar á ferðinni Engar sýnilegar breytingar á hraunflæði eða krafti Ók á ljósastaur við Grensásveg Eldur kviknaði í bíl í Mosfellsbæ Læknar fara þokkalega bjartsýnir inn í morgundaginn Viðreisn stærst samkvæmt nýrri kosningaspá en mjótt á munum Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagt til niðurskurð á hverju ári Hefur gefið Landgræðslunni 26 milljónir króna í formi fræja Mikilvægt að Bláa lónið geti opnað sem fyrst Hvetja íbúa Suðurnesja til að spara heita vatnið Varnaraðgerðir í Svartsengi og umdeild yfirhalning hjá Jaguar Ísland virðir handtökuskipan á hendur Netanjahú Fjölmiðlabann í kjaradeilu kennara Hildur hnýtir í Sigurð og sakar hann um ýkjur Straumar valda álagi á varnargarða og staðan viðkvæm Sjá meira