Skoðun

Yfirlýsing vegna Alþjóðlega mannréttindadagsins

Federica Mogherini skrifar
Þann 10. desember halda Evrópusambandið og aðildarríki þess upp á Alþjóðlega mannréttindadaginn. Þar sem ójöfnuður og mannréttindabrot fara sívaxandi víða um heim, og átökum linnir ekki í löndum á við Sýrland, er enn brýnna en ella að efla aðgerðir okkar til varnar sameiginlegum réttindum allra. Þess vegna tökum við höndum saman með Sameinuðu þjóðunum í ákalli til fólks um að verja rétt hvers og eins.

Hvert og eitt okkar ber persónulega ábyrgð á því að standa vörð um þessi réttindi. Við getum sótt innblástur til þeirra mannréttindafrömuða sem hafa í fjölda landa sýnt hugrekki frammi fyrir vaxandi þrýstingi og ógnunum. Evrópusambandið ásetur sér að verja þá, og efla rými borgaralegs samfélags. Embættismenn ESB, á öllum stigum, gera þetta með fundum við mannréttindafrömuði, eftirliti með réttarhöldum yfir þeim, heimsóknum til þeirra sem haldið er föngnum og með því að vekja máls á stöðu þeirra við stjórnvöld. Gegnum neyðarsjóð EIDHR hefur ESB einnig í ár veitt fjárhagsaðstoð til yfir 250 mannréttindafrömuða og fjölskyldna þeirra, sem eru í hættu vegna daglegra starfa sinna.

ESB stendur vörð um mannréttindi

Aðgerðir einstaklinga skipta sköpum, en Evrópusambandið í heild mun þó áfram gegna forystuhlutverki í að tala máli heimsskipulags á grundvelli laga og réttar, með virðingu fyrir mannréttindum að leiðarljósi. Stavros Lambrinidis, sérlegur fulltrúi mannréttinda innan ESB, vinnur ötullega að því að hefja merki mannréttindastefnu ESB á loft á alþjóðavettvangi. Á sama tíma starfa sendinefndir ESB linnulaust að vörnum mannréttinda innan gistilanda sinna. ESB er enn sem fyrr einarður talsmaður mannréttinda á fjölþjóðavettvangi. Við styðjum mannréttindakerfi Sameinuðu þjóðanna heilshugar, sem lykilþátt til að verja mannréttindi og til að hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt.

Á næsta ári mun Evrópusambandið fylgja eftir nýrri Heimsáætlun ESB í utanríkis- og öryggismálum, sem kynnt var í júní 2016, þar sem við hétum því að hlúa að virðingu fyrir mannréttindum bæði innan og utan sambandsins. Það felur í sér að tryggja hæsta stig mannréttindavarna fyrir förufólk og flóttamenn í öllum aðgerðum ESB á sviði fólksflutninga og þróunar. Að sama skapi munum við endurnýja skuldbindingar okkar í baráttunni gegn pyntingum og illri meðferð, og til að verja réttindi barna. Í dag, og sérhvern dag á komandi ári, mun ESB standa vörð um mannréttindi á heimsvísu, og heitir hverjum einstaklingi sem það gerir fullum stuðningi.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×