Skoðun

Opin fjármál Reykjavíkurborgar

Halldór Auðar Svansson skrifar

Opnað hefur verið nýtt svæði á vefsíðu Reykjavíkurborgar, Opin fjármál Reykjavíkurborgar. Þar má nú sjá ítarlega myndræna framsetningu á útgjöldum og tekjum borgarinnar, fyrstu níu mánuði þessa árs og árin 2014 og 2015. Þessi framsetning er í grunninn svipuð þeirri sem viðhöfð hefur verið í kringum útgáfu fjárhagsáætlana – en er enn þá gagnvirkari og ítarlegri. Ekki einungis er hægt að grafa sig niður í skipulag borgarinnar allt niður á einstaka starfsstöðvar og skoða samsetningu mismunandi útgjalda- og tekjuliða á borð við launakostnað og útsvars­tekjur, heldur er líka hægt að skoða hvern ársfjórðung fyrir sig og sjá nákvæmlega til hverra útgjöldin renna, sumsé hverja borgin skiptir við og fyrir hversu háar upphæðir.



Það er fullkomlega eðlileg krafa að opinberir aðilar nýti upplýsingatæknina með þessum hætti til að opna á aðhald almennings gagnvart rekstri sem er fjármagnaður með opinberum gjöldum. Enda hefur Reykjavíkurborg sett sér mjög metnaðarfull markmið í þessum efnum, með nýrri upplýsingastefnu sem samþykkt var af öllum borgarfulltrúum sumarið 2015, en þar segir meðal annars að „Reykjavíkurborg skal vera leiðandi í nýjungum í upplýsingamiðlun og upplýsingaframboði. Borgin nýti nýja tækni á markvissan hátt við að gera upplýsingar borgarinnar aðgengilegar.“



Starfsfólk borgarinnar hefur unnið ötullega samkvæmt þessari stefnu og í því felst meðal annars innleiðing á öflugum hugbúnaði, Qlik Sense, sem býður upp á mikla möguleika í birtingu gagna. Vefsvæðið Opin fjármál Reykjavíkurborgar eins og það lítur út núna er stórt skref en það er einungis fyrsta skrefið í átt að því að nýta möguleikana. Nýjungar og viðbætur verða síðan innleiddar í öruggum skrefum.



Lokamarkmiðið er fullt gagnsæi útgjalda og tekna alveg niður á einstaka reikningsfærslur, mánuð eftir mánuð. Einnig að þessi gögn séu gefin út sem hrágögn sem aðrir aðilar geta tekið og birt með sínum hætti, svonefnd opin gögn, en upplýsingastefnan setur líka metnaðarfull markmið um útgáfu þeirra.



Að öðru leyti eru möguleikarnir á birtingu upplýsinga í raun endalausir, ekki bara fjárhagsupplýsinga heldur einnig ýmiss konar annarra upplýsinga og talnaefnis um starfsemi borgarinnar. Kostirnir við slíkt gagnsæi eru fjölmargir og áhrifin víðtæk. Aðhald almennings og upplýstari umræða leiða til betri og lýðræðislegri ákvarðanatöku og skilvirkari stjórnunar – því betur sjá augu en auga. Við höfum í raun bara séð byrjunina og það verður svo sannarlega spennandi að fylgjast með framhaldinu.

 



Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×