Skoðun

Hvar er hugur þinn?

Bjarni Gíslason skrifar
Ég er einn af þeim sem geta verið pínulítið utan við sig á stundum. Stundum segir konan mín við mig: „Bjarni ertu hérna? Halló!“ Þá er hugur minn einhvers staðar allt annars staðar og hún nær ekki sambandi þó að ég hafi jafnvel hummað við einhverju og þóst vera á staðnum.

Við erum mörg sem þurfum að vera duglegri við að vera þar sem við erum með fulla einbeitingu á stund og stað og þeim manneskjum sem maður er með þar og þá.

Saman í friði og sátt

En þrátt fyrir að þetta sé satt ætla ég samt að færa rök fyrir því að stundum megi maður vera með hugann annars staðar. Ekki síst núna þegar jólin eru að koma og við ætlum öll að njóta þess að vera til, vera saman í friði og sátt. Þá er hollt að vera með hugann líka annars staðar, til dæmis hjá þeim sem lifa ekki við frið og sátt, velsæld og velmegun eins og við flest.

Að leggja fram sinn skerf

Flóttamenn frá Sýrlandi í flóttamannabúðum í Jórdaníu eða flóttamenn frá Suður-Súdan í Úganda eða fólkið í Jijiga-héraði í Eþíópíu þar sem úrkoma er af skornum skammti og vatn sömuleiðis. Það má vera annars hugar og vera með hugann hjá þeim OG leggja fram sinn skerf til þess að þau hafi það betra.

Hagur náungans

Oft er það ákveðin sjálflægni sem gerir það að verkum að maður er annars hugar, upptekinn við eigin hag. Það er allavega skárra að vera annars hugar af því að maður er að hugsa um hag náungans.

Jólasöfnun Hjálparstarfs kirkjunnar er í fullum gangi. Vertu annars hugar og taktu þátt. Þá getur þú svarað: „Já, elskan, ég er hér, ég var bara að hugsa um náunga minn, en nú ætla ég að horfa í augun á þér öll jólin.“

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×