Forgangsröðun Hörður Ægisson skrifar 3. mars 2017 09:00 Ein helsta forsenda þess að hægt var að hefja almenna haftalosun á Íslendinga í byrjun árs voru aðgerðir sem gripið var til gagnvart eigendum aflandskróna. Þeir stóðu frammi fyrir skýrum valkostum. Að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, þar sem þeim bauðst að selja eignir sínar fyrir gjaldeyri á genginu 190 krónur fyrir hverja evru, ella þurfa að sæta því að sitja fastir með fé sitt á læstum vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma. Þeir bandarísku fjárfestingarsjóðir sem áttu meginþorra þessara krónueigna kusu síðari kostinn og fóru því aftast í röðina. Þessar aðgerðir voru nauðsynlegar til að girða fyrir þann möguleika að aflandskrónueignir gætu valdið óstöðugleika samtímis því að opnað yrði fyrir fjármagnsviðskipti Íslendinga. Þessir sömu sjóðir, sem eiga samanlagt um 150 milljarða í aflandskrónum, freista þess nú að fá stjórnvöld til að breyta leikreglunum. Greint var frá því í Markaðnum í vikunni að íslenskir embættismenn hefðu fundað með fulltrúum sjóðanna í New York til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Ljóst þykir að slíkt samkomulag myndi þýða umtalsvert hagstæðara útboðsgengi fyrir sjóðina en þeim stóð til boða í fyrra. Það hefur legið fyrir frá upphafi að forsvarsmönnum bandarísku sjóðanna hugnaðist ekki þessi staða – og hafa þeir beitt ýmsum úrræðum til að reyna að grafa undan aðgerðum íslenskra stjórnvalda. Óþarfi er hins vegar að efast um lögmæti þeirra enda er aðferðafræðin gerð í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Stóru lánshæfismatsfyrirtækin hafa lagt blessun sína yfir aðgerðirnar og hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá gerði Eftirlitsstofnun EFTA undir lok síðasta árs ekkert með kvartanir bandarísku sjóðanna. Það skýtur þess vegna skökku við ef stjórnvöld hafa í hyggju að hverfa frá fyrri stefnu á þessum tímapunkti og hleypa sjóðunum úr landi á mun hagstæðara gengi en öðrum aflandskrónueigendum bauðst í fyrra – áður en búið er að afnema höftin á Íslendinga. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra neitaði því aðspurður á Alþingi í gær að um stefnubreytingu væri að ræða í þessum efnum. „Það kemur ekki til greina að skapa einhverja lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki felur það um leið í sér að hægt verði að fara í fullt afnám hafta.“ Ekki er ástæða til að efast um þau orð forætisráðherra. Þótt efnahagsstaða Íslands hafi líklega aldrei verið betri þá þýðir það ekki að eigendur aflandskróna eigi sjálfkrafa að njóta þeirrar bættu stöðu. Þeir hafa nú þegar fengið sérmeðferð enda áttu aflandskrónueigendur þess einir kost um árabil að losna út fyrir höft í tengslum við fjárfestingaleið Seðlabankans. Allar aðstæður eru núna fyrir hendi til að stíga skrefið til fulls og opna sem fyrst alfarið á erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða, fyrirtækja og heimila. Stefna stjórnvalda við að framfylgja áætlun um afnám hafta hlýtur að vera áfram sú að forgangsraða í þágu íslensks almennings – en ekki bandarískra vogunarsjóða. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Hörður Ægisson Mest lesið Braggablús Ölmu Eyþór Kristleifsson Skoðun Kosningabaráttan er kostuð af þér Ragnar Sigurður Kristjánsson Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Af hverju ætti ég að standa með kennurum? Stefán Birgir Jóhannesson Skoðun Helvítis Píratarnir Unnar Þór Sæmundsson Skoðun Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Er „woke-ismi“ genginn of langt? Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir Skoðun Dýrkeypt jólagjöf Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Veldu Viðreisn Katrín Sigríður J Steingrímsdóttir Skoðun Reikningskúnstir Ragnars Þórs Björn Leví Gunnarsson Skoðun
Ein helsta forsenda þess að hægt var að hefja almenna haftalosun á Íslendinga í byrjun árs voru aðgerðir sem gripið var til gagnvart eigendum aflandskróna. Þeir stóðu frammi fyrir skýrum valkostum. Að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans, þar sem þeim bauðst að selja eignir sínar fyrir gjaldeyri á genginu 190 krónur fyrir hverja evru, ella þurfa að sæta því að sitja fastir með fé sitt á læstum vaxtalausum reikningum um ófyrirséðan tíma. Þeir bandarísku fjárfestingarsjóðir sem áttu meginþorra þessara krónueigna kusu síðari kostinn og fóru því aftast í röðina. Þessar aðgerðir voru nauðsynlegar til að girða fyrir þann möguleika að aflandskrónueignir gætu valdið óstöðugleika samtímis því að opnað yrði fyrir fjármagnsviðskipti Íslendinga. Þessir sömu sjóðir, sem eiga samanlagt um 150 milljarða í aflandskrónum, freista þess nú að fá stjórnvöld til að breyta leikreglunum. Greint var frá því í Markaðnum í vikunni að íslenskir embættismenn hefðu fundað með fulltrúum sjóðanna í New York til að kanna grundvöll að samkomulagi sem myndi gera þeim kleift að flytja eignir úr landi í skiptum fyrir gjaldeyri. Ljóst þykir að slíkt samkomulag myndi þýða umtalsvert hagstæðara útboðsgengi fyrir sjóðina en þeim stóð til boða í fyrra. Það hefur legið fyrir frá upphafi að forsvarsmönnum bandarísku sjóðanna hugnaðist ekki þessi staða – og hafa þeir beitt ýmsum úrræðum til að reyna að grafa undan aðgerðum íslenskra stjórnvalda. Óþarfi er hins vegar að efast um lögmæti þeirra enda er aðferðafræðin gerð í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í fullu samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar. Stóru lánshæfismatsfyrirtækin hafa lagt blessun sína yfir aðgerðirnar og hækkað lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þá gerði Eftirlitsstofnun EFTA undir lok síðasta árs ekkert með kvartanir bandarísku sjóðanna. Það skýtur þess vegna skökku við ef stjórnvöld hafa í hyggju að hverfa frá fyrri stefnu á þessum tímapunkti og hleypa sjóðunum úr landi á mun hagstæðara gengi en öðrum aflandskrónueigendum bauðst í fyrra – áður en búið er að afnema höftin á Íslendinga. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra neitaði því aðspurður á Alþingi í gær að um stefnubreytingu væri að ræða í þessum efnum. „Það kemur ekki til greina að skapa einhverja lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki felur það um leið í sér að hægt verði að fara í fullt afnám hafta.“ Ekki er ástæða til að efast um þau orð forætisráðherra. Þótt efnahagsstaða Íslands hafi líklega aldrei verið betri þá þýðir það ekki að eigendur aflandskróna eigi sjálfkrafa að njóta þeirrar bættu stöðu. Þeir hafa nú þegar fengið sérmeðferð enda áttu aflandskrónueigendur þess einir kost um árabil að losna út fyrir höft í tengslum við fjárfestingaleið Seðlabankans. Allar aðstæður eru núna fyrir hendi til að stíga skrefið til fulls og opna sem fyrst alfarið á erlendar fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða, fyrirtækja og heimila. Stefna stjórnvalda við að framfylgja áætlun um afnám hafta hlýtur að vera áfram sú að forgangsraða í þágu íslensks almennings – en ekki bandarískra vogunarsjóða.