Skoðun

Brask og bakreikningar

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Bankakerfið verður að geta staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan þess þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið með ódýrri sjálfsagðri þjónustu við fólk og fyrirtæki. Sparifjáreigendur hafa ekki veð í bönkunum en verða að geta treyst því að sparifé þeirra sé öruggt og aðgengilegt til að greiða með regluleg útgjöld. Hér eru innstæður tryggðar að lágmarki um 1,7 milljónir króna. Evróputilskipun frá 2014 hefur ekki enn verið tekin upp hér á landi um mun hærri tryggingu eða 12 milljónir króna. Stjórnvöld hafa hins vegar gefið það út að sparifé landsmanna sé ekki lengur tryggt að fullu og því er staða sparifjáreigenda hér á landi ekki ásættanleg.

Í nýlegri skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins fjallar starfshópur um kosti og galla við aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi. Þar segir að löggjöf þurfi að tryggja að áhætta af fjárfestingarbankastarfsemi skapi ekki kerfisáhættu þannig að innviðum fjármálakerfisins, efnahagskerfinu, almenningi og ríkissjóði stafi hætta af slíkri starfsemi. Ég tel að hagur almennings sé best varinn með því að fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi verði aðskilin með lögum.

Fjárfestingarbankar taka áhættu í hagnaðarskyni langt umfram það sem viðskiptabankar gera. Viðskiptabankastarfsemi tekur lágmarksáhættu við ávöxtun sparifjár almennings og sér um nauðsynlega greiðslumiðlun. Sú bankastarfsemi er samfélagslega mikilvæg og ómissandi þjónusta við almenning. Þess vegna hefur bankastarfsemi notið stuðnings ríkisins beint og óbeint. Þegar fjárfestingarbankastarfsemi er blandað saman við nauðsynlega þjónustu við almenning nýtur áhættusækin fjármálastarfsemi stuðnings ríkisins um leið. Sagan sýnir okkur að sú starfsemi ýtir bæði undir græðgi og skammtíma hagsmuni þeirra sem taka mikla áhættu. Ef þessi blöndun viðgengst þá munu braskarar eiga áfram greiðan aðgang og afnot af sparifé almennings. Seðlabankinn á ekki að styðja braskið.

Fjárfestar sem njóta alls ávinnings af áhættu ef vel tekst til, eiga líka að bera allan kostnað þegar verr gengur. Honum má ekki velta yfir á almenning.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×