Skoðun

Ljótur leikur

Logi Einarsson skrifar
Mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmála er að auka jöfnuð landsmanna; eyða fátækt og bæta kjör þeirra sem standa höllum fæti.

Yfir sex þúsund íslensk börn búa við fátækt. Það gera margir öryrkjar einnig og hafa ekki uppskorið í góðærinu síðustu ár. Aldraðir lifa sumir við nagandi óöryggi og skort. Ungt fólk hrekst milli íbúða á ótryggum og gróðavæddum leigumarkaði, hefur litla möguleika á að kaupa húsnæði og sér jafnvel takmarkaða framtíð hér á landi.

Til að bæta úr þessari þjóðarskömm þarf að virkja það fegursta í mannssálinni; samkennd og samhjálp. Ná víðtækri sátt um samneyslu sem miðar að því að jafna lífskjörin. Við sem berum mikið úr býtum getum borið meiri álögur um leið og hlífa á þeim sem minna hafa milli handanna. Þá þarf þjóðin að fá sanngjarnari arð af auðlindunum.

Hækka þarf lægstu launin, tryggja öryrkjum og öldruðum ásættanlegan lífeyri og gera þeim kleift að afla aukatekna, án þess að lífeyrir sé jafnharðan skertur. Þá þarf að auka barna- og húsnæðisstyrk, þannig að ungt fjölskyldufólk fari vel nestað út í lífið.

Um þetta eru margir Íslendingar sem betur fer sammála en því miður ber nú á nokkuð nýjum og heldur ömurlegum tón í umræðunni. Þær raddir verða sífellt háværari í fjölmiðlum, á samfélagsmiðlum og jafnvel hjá stjórnmálamönnum, sem fullyrða að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur sé á kostnað þeirra Íslendinga sem eiga erfitt. Það er ósmekklegt að ýja órökstutt að því að einn hópur sem á um sárt að binda beri ábyrgð á öðrum í vondri stöðu. Og það er beinlínis ógeðslegt ef sá málflutningur er notaður til að afla stjórnmálaflokkum fylgis. Samfylkingin mun ekki taka þátt í slíku og andæfa honum kröftuglega.

Ísland er ríkt land og við getum vel bætt aðstæður Íslendinga sem höllum fæti standa, um leið og við öxlum sjálfsagða ábyrgð: Að rétta þeim hjálparhönd, sem hingað leita, úr ömurlegum aðstæðum og af sárri neyð.

Höfundur er alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×