Skoðun

Haustverkin

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar
Á meðan tímarnir breytast og mennirnir með þá er stundum eins og stjórnmálin og stjórnsýslan lúti öðrum lögmálum. Það þarf ekki endilega að vera slæmt en í flestum tilfellum er þó betra að þessir hlutir haldist í hendur. Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu hefur mikil framþróun átt sér stað á undanförnum árum á ýmsum sviðum en annað setið á hakanum. Í haust verður lagt kapp á að bæta úr nokkrum af þessum þáttum, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi.

Ýmis stór mál eru í vinnslu, bæði á vettvangi endurskoðunarnefndar búvörusamninga og sáttanefndar í sjávarútvegi. Önnur mál en ekki síður mikilvæg eru langt komin í meðförum ráðuneytisins. Þessa stundina er til að mynda unnið hörðum höndum að lausn á vanda sauðfjárbænda sem sjá fram á erfiða tíma í haust af ýmsum ástæðum. Mikilvægt er að sú lausn bæti annmarka núverandi kerfis í stað að festa þá enn frekar í sessi. Sama gildir um tillögur að breytingum á úthlutun byggðakvóta þar sem lögð er áhersla á meiri sveigjanleika og fyrirsjáanleika fyrir sveitarfélög vítt og breitt um landið. Breytingar á samkeppnisstöðu mjólkuriðnaðarins eru einnig fyrirhugaðar sem og nýtt fyrirkomulag á úthlutun tollkvóta. Síðast en ekki síst verður skerpt á umhverfi fiskeldis með það að leiðarljósi að byggja enn frekar upp þessa mikilvægu atvinnugrein án þess að allt verði brjálað. Með öðrum orðum, að ná jafnvægi milli nýtingar og verndar.

Íslenskur samtími er og á að vera kröfuharður. Á sama tíma og neytendur vilja frelsi í innkaupum og bændur sem aðrir atvinnurekendur frelsi til athafna þá takast á markaðs-, manneldis-, byggða-, og umhverfissjónarmið sem nauðsynlegt er fyrir stjórnvöld hverju sinni að taka tillit til. Ísland er umhverfisvænt matvælaland með heilnæmi og ferskleika sem sitt aðalsmerki. Haustverkin sem fram undan eru verða vonandi til þess fallin að svo megi verða áfram, íslenskri matvælaframleiðslu og almenningi til heilla.

Höfundur er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×