Skoðun

Í fréttum er þetta helst ...

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Árið 1937 voru aðildarfélagar Blaðamannafélags Íslands tuttugu talsins. Þetta voru þá blaðamenn helstu dagblaða í Reykjavík og innan hópsins var ein kona. Sem betur fer hefur mikið breyst síðan þá, enda get ég ekki ímyndað mér hversu einsleitir fjölmiðlar væru ef 95% starfsmanna frétta væru eingöngu karlar. Persónulega tel ég líka að aukin hlutdeild kvenna í fjölmiðlum hafi aukið fjölbreytileika efnis og umræðu svo um munar. Með fleiri konum í fjölmiðlum höfum við hreinlega uppskorið meira, betra og fjölbreyttara efni.

En við þurfum ekki aðeins að fjölga konum innan fjölmiðla, heldur einnig í hópi viðmælenda. Þar er oft talað um að hlutföllin séu 70:30, karlmönnum í vil. Undantekning var þó fjölmiðladagur FKA í fyrra. Þá tóku fjölmiðlar svo rækilega þátt, að konur urðu nánast allsráðandi í umræðunni og mjög áberandi í öllum tegundum miðla. Tvennt gerðist í kjölfarið: í fyrsta lagi víxluðust kynjahlutföllin í ljósvakafréttum, konum í vil. Þetta teljum við vera einsdæmi í heiminum. Hins vegar staðfesti góð þátttaka fjölmiðla áhuga þeirra og vilja til að jafna stöðu kynjanna í umræðunni. Við konurnar stöndum líka alveg undir því að taka meiri þátt. Við erum virkar á öllum sviðum atvinnulífs, í stjórnmálum, erum vel menntaðar og stöndum jafnfætis öðrum sem álitsgjafar.

Jöfn ásýnd kynja í fjölmiðlum getur líka leitt til hraðari breytinga í svo mörgu. Ég nefni sem dæmi hraðari árangur í að jafna hlutdeild kynja í stjórnunarstöðum, í launum eða í stjórnmálum. Í dag er fjölmiðladagur FKA 2017 og er sérlegur gestur okkar Mary Hockaday frá BBC. Mary mun hitta fyrir fjölmiðlafólk, FKA konur og fleiri, en í tilefni dagsins hvet ég líka fjölmiðla til að ræða við sem flestar konur, hvert svo sem viðfangsefnið er.

Markmiðið er að víxla kynjahlutföllum viðmælenda í einn dag, eins og í fyrra. Í þetta sinn hefur Jafnréttisráð Evrópu óskað eftir upplýsingum um hvernig til tekst. Það er því aldrei að vita nema að þetta sameiginlega verkefni FKA og fjölmiðla um aukna ásýnd kvenna í fjölmiðlum, endi með að verða öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Háleit hugmynd en ekki fráleit. Eða hvað finnst ykkur?

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×