Skoðun

6 helstu velferðarmál Íslendinga

Ole Anton Bieltvedt skrifar
Eftir langa dvöl erlendis sér undirritaður að nokkru stöðu mála hér með augum aðkomumannsins. Það þýðir auðvitað ekki, að ég sjái allt réttar en heimamenn, en kannski sumt. Alla vega geta ný sjónarmið hresst upp á hugsun, umræðu og skoðunarmyndun.

1. Upptaka evru eða beintenging krónu

Efnahagslegar sveiflur hafa verið gífurlegar, einkum vegna smæðar og styrkleysis krónunnar. Hefur þetta valdið landsmönnum mikilli óvissu og oft hörmungum og fári. Þetta styrkleysi krónunnar hefur líka kallað á okurvexti, sem hafa legið eins og mara á lántakendum og skuldurum.

Til að leysa þetta stærsta einstaka vandamál þjóðarinnar, þarf, annað hvort, að taka upp evru eða beintengja krónuna við evru, t.a.m. á grundvelli gengisins 1:130, en Danir hafa beintengt dönsku krónuna við evru, og hefur það tryggt Dönum sama efnahagslega stöðugleikann og sömu lágu vextina og gilda í evru-löndunum.

2. Stórfelld vaxtalækkun

Með ofangreindri aðferð og ábyrgri efnahags- og peningastjórn, ætti að vera hægt að lækka stýrivexti um 3,0-3,5% í framhaldinu.

Slík vaxtalækkun gæti sparað landsmönnum allt að 180 milljörðum króna á ári, en heildarskuldsetning Íslendinga er um 6.000 milljarðar; Heimilin gætu sparað um 57 milljarða á ári = 60.000,00 krónur á mánuði hvert, fyrirtæki gætu sparað 75 milljarða og ríkið og sveitarfélög gætu sparað 48 milljarða á ári.

3. Nákvæm úttekt á ríkisbákninu

Mikið hefur orðið hér til af alls konar stofnunum og starfsemi á vegum ríkisins. Má nefna Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun, sem vinna að svipuðum verkefnum. Mér er líka til efs, að ýtrustu hagkvæmni sé gætt í ráðuneytum og opinberum stofnunum.

Í fyrirtækjum þarf stöðugt að hreinsa til og draga úr óþarfa kostnaði til að fyrirtækin geti staðið sig í samkeppninni og lifað af. Sparast við slík átök oft gífurlegar fjárhæðir.

Er ekki mál til komið, að rækilega sé hreinsað til í íslenska ríkisbákninu!? Bara ríkisútgjöldin eru um 730 milljarðar á ári. Með faglegri og framsækinni sparnaðaraðgerð mætti örugglega spara ótalda milljarða.

4. Umbætur með sparnaði, ekki nýjum álögum

Skv. ofangreindu, mætti losa um mikla fjármuni, sem síðan mætti fjárfesta í menntun, heilbrigðiskerfi, vegakerfi og velferð aldraðra. Er með ólíkindum, hversu lítils framlag fyrri kynslóða er metið hér, og verða aldraðir nánast að tína brauðmolana, sem af borði velferðarríkisins hrjóta.

5. Stórfellt átak í dýra-, náttúru- og umhverfisvernd

Það hefur farið fram hjá mörgum hér, að búið er að ganga heiftarlega á lífríki jarðar, og eyða og útrýma jurta- og dýrategundum í stórum stíl, auk þess, sem búið er að spilla lofti og legi í alvarlegum mæli.

Ég skil það ekki að unga fólkið, sem landið á að erfa, skuli hafa horft upp á þetta þegjandi og hljóðalaust, og það er alvarlegt ábyrgðarleysi eldri kynslóðarinnar að láta þetta gerast.

Það voru um 5 milljónir rjúpna á Íslandi fyrir hundrað árum, nú er búið að eyða þeim niður í 100 þúsund. Árið 1980 voru 32 þúsund selir við Ísland, nú eru þeir 7 þúsund. Verið er að drepa um fjórðung hreindýrastofnsins ár hvert, veiðimönnum til skemmtunar, líka næstum þúsund kýr frá 2ja mánaða kálfum sínum. Mikill skepnuskapur manna það.

Stórhveli í úthöfunum voru um 500 þúsund fyrir 100 árum, nú eru þau um 60 þúsund. Og enn rembumst við við að halda úti hvalveiðum, að því er virðist af monti einu saman, því að ekki er gróði á því dýraníði.

6. Niðurfelling skatta á ellilífeyri

Mér sýnist að ellilífeyrir sé reiknaður og greiddur út með allt að 40% staðgreiðslufrádrætti. Með tilliti til þess að ellilífeyrisþegar hafa þá þegar greitt til samfélagsins alla sína ævi og ellilífeyrir er ekki býsna hár t.a.m miðað við húsnæðiskostnað, hefði ég talið, að fella ætti niður alla skatta á ellilífeyri og borga hann út óskertan.

 

Höfundur er alþjóðlegur kaupsýslumaður.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×