Skoðun

Menntakerfið er ekki eyland

Sigurður Hannesson skrifar
Það mikilvæga verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar að marka skýra stefnu um það hvernig nemendur á Íslandi verða undirbúnir til að mæta kröfum framtíðarinnar á vinnumarkaðnum. Menntakerfið gegnir þeim mikilvæga tilgangi að undirbúa komandi kynslóðir undir störf framtíðarinnar. Aukið fjármagn í menntakerfið er ekki nauðsynleg forsenda fyrir breytingar. Miklu frekar þarf nýja hugsun og nýjar áherslur til að leysa vandann. Það velkist enginn í vafa um að menntakerfið er mikilvægt fyrir gangverk samfélagsins en það er langt frá því að vera eyland.

Miklar breytingar á tækni og störfum fylgja fjórðu iðnbyltingunni sem þegar er hafin. Það er heilmikið færnimisræmi til staðar en þá er átt við það misræmi sem er á milli þeirrar færni sem fyrirtæki þarfnast og færni fólks á vinnumarkaði. Það hefur reynst erfitt að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og blasir við að fjölga þarf þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.

Nauðsynlegt er að vekja áhuga nemenda á tækni og vísindum. Þátturinn Nýjasta tækni og vísindi sem var sýndur á RÚV um árabil hafði mjög jákvæð áhrif í þá veru og væri ráð að endurvekja hann í einhverri mynd. Forritun er tungumál 21. aldarinnar og því hafa Samtök iðnaðarins lagt áherslu á að forritun verði gerð að skyldufagi í grunn- og framhaldsskólum. Til marks um að hægt er að ná einstökum árangri þegar stjórnvöld og atvinnulíf taka höndum saman er Microbit verkefnið. Þar hafa mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samtök iðnaðarins, Menntamálastofnun, KrakkaRúv og fjöldi íslenskra fyrirtækja látið nemendum í té Microbit smátölvur sem hægt er að nota til forritunar. Viðtökurnar hafa sýnt að nemendur eru tilbúnir að takast á við ný verkefni en markmiðið er að efla þekkingu og áhuga.

Menntakerfið þarf að laga sig að breyttum veruleika og undirbúa nýjar kynslóðir fyrir störf og starfsumhverfi sem ekki eru þekkt í dag. Það má engan tíma missa því ekki viljum við að íslenskir nemendur verði eftirbátar annarra ungmenna né viljum við draga úr samkeppnishæfni Íslands. Ný hugsun í menntamálum skilar sér margfalt til samfélagsins.

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×