Skoðun

Viljum við börnum ekki betur?

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Dæmdur kynferðisbrotamaður sætir gæsluvarðhaldi grunaður um ítrekuð brot gegn börnum. Lögreglustjórinn á Suðurlandi segir að háttsemin lúti að grófum og ítrekuðum kynferðisbrotum sem spanna yfir langt tímabil og „sýni ákveðið hegðunarmynstur eða kenndir sem [maðurinn] virðist ekki hafa stjórn á“.

Árið 2012 fullgilti Ísland bindandi Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðisofbeldi, Lanzarote-samninginn. Samkvæmt honum eru stjórnvöld skuldbundin til að tryggja að einstaklingar sem óttast að þeir kunni að brjóta gegn börnum kynferðislega hafi aðgang að sálfræðingum og geðlæknum með það að markmiði að koma í veg fyrir slík brot. Í samningnum er jafnframt lögð áhersla á að áhættumat sé gert og meðferð veitt á meðan dæmdir kynferðisbrotamenn afplána dóma sína.

Hjá Fangelsismálastofnun starfa fjórir sálfræðingar í þremur stöðugildum og sinna sex hundruð skjólstæðingum, þ.e. föngum, fólki sem gegnir samfélagsþjónustu eða er á reynslulausn. Engir geðlæknar starfa í fangelsum landsins, engar meðferðir eru fyrir fanga sem haldnir eru barnagirnd og engin betrunarstefna er rekin. Afstaða hefur ítrekað bent á að á meðan ástandið er með þessum hætti séu litlar líkur á því að þeir sem dæmdir eru fyrir barnaníð komi út betri menn.

Fyrir nokkrum árum ákváðu stjórnvöld að fella niður tímabundið fjármagn til Fangelsismálastofnunar sem notað var til þess að halda úti forvarnaaðgerðum vegna kynferðisbrota gegn börnum. Fangar með barnagirnd fá í dag enga meðferð og á meðan svo er munu þeir eflaust halda áfram að sýna ákveðin hegðunarmynstur eða kenndir sem þeir virðast ekki hafa stjórn á.

Stjórnvöld verða að sýna að þau hafi vilja til að koma í veg fyrir ítrekuð brot fanga.

Höfundur er formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×