Skoðun

Heilsuhraustir eldri borgarar í Hafnar­firði

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Hafnarfjörður var eitt af fyrstu sveitarfélögum landsins til að gerast heilsueflandi samfélag með samningi sem gerður var við Landlæknisembættið í upphafi kjörtímabilsins. Í því felst að sveitarfélagið skuldbindur sig til að leggja áherslu á að heilsa og vellíðan íbúanna sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og lögð sé áhersla á heilsueflandi aðgerðir á öllum sviðum. Skólarnir hafa verið þar fremstir í flokki og nálgast viðfangsefnið með ýmsu móti. Í upphafi innleiðingar heilsustefnu Hafnarfjarðar hefur verið lögð áhersla á að efla og styrkja sjálfsmynd barna og unglinga í því skyni að stuðla að vellíðan þeirra. Aðgengi að fjölbreyttum möguleikum íbúa til útivistar, hreyfingar og íþróttaiðkunar er einnig í forgangi, m.a. með því að tryggja að göngu,-hlaupa,- og hjólaleiðir séu góðar, opnunartími sundlauga hefur verið aukinn, niðurgreiðslur til barna og eldri borgara til frístunda- og íþróttaþátttöku hækkað og lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja.



Að bæta lífsgæðin á eldri árum

Sérstök heilsuefling eldri borgara í bænum er nú að hefjast. Íbúum, 65 ára og eldri, býðst að taka þátt í nýju verkefni sem Hafnarfjarðarbær ýtir nú úr vör í samstarfi við Janus Guðlaugsson íþróttafræðing. Um er að ræða þol- og styrktarþjálfun þar sem hver og einn fær einstaklingsmiðaða æfingadagskrá sem gerð verður í kjölfar mælinga á þreki, styrk og líkamlegu ástandi viðkomandi.  Auk æfinga verður þátttakendum boðið upp á fyrirlestra um hollt mataræði og lífsstíl. Markmiðið er að íbúar bæti heilsu sína og geti viðhaldið eða aukið lífsgæði sín á eldri árum. Það hefur m.a. áhrif á hve lengi fólk getur verið í eigin búsetu og sinnt athöfnum daglegs lífs þegar aldurinn færist yfir. Fyrst og fremst er þó markmiðið að hvetja eldri borgara til að hreyfa sig og huga að heilsueflandi þáttum í lífi sínu. Allt til að auka ánægju þeirra, hamingju og hreysti.  Fyrst um sinn gefst 160 íbúum á aldrinum 65 ára og eldri tækifæri til að taka þátt í þessu spennandi verkefni. Frekari kynning og skráning fer fram í dag, fimmtudag, kl. 14 í Hraunseli við Flatahraun 3 og kl. 19:30 í Tækniskólanum við Flatahraun 12.



Nú er um að gera að stíga skrefið; taka þátt og hafa þannig áhrif á eigin heilsu og líðan.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×