Skoðun

Intersex og umskurður

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Umræðan tekur stundum á sig áhugaverðar myndir.

Ég sat á dögunum málþing um réttindi og líkamlega friðhelgi intersex fólks, þar með talið barna. Í gegnum tíðina hefur intersex fólk, fólk sem fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni, verið látið sæta róttækum og oft óafturkræfum inngripum s.s. skurð­aðgerðum og hormónameðferðum til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form. Oft eru inngripin framkvæmd á ungbörnum sem geta ekki tekið þátt í ákvörðuninni, þrátt fyrir að bið myndi ekki stefna líkamlegri heilsu þeirra í hættu, en inngripið gæti sannarlega falið í sér alvarlegar líkamlegar og andlegar afleiðingar.

Á síðustu árum hefur þó orðið mikill viðsnúningur hér á landi samhliða vitundarvakningu á erlendri grund. Malta varð árið 2015 fyrst ríkja til að lögfesta líkamlega friðhelgi intersex fólks, þ.m.t. barna, og sambærileg vinna er hafin víðar í Evrópu, m.a. á Íslandi. Það eru góðu fréttirnar.

Markmiðið er að það verði – loksins – skýrt kveðið á í lögum að læknisfræðileg inngrip á intersex börnum verði bönnuð nema um nauðsynlegar aðgerðir sé að ræða sem ekki er hægt að forðast eða fresta þar til einstaklingur getur tekið upplýsta ákvörðun um slíkt.

En aftur að samfélagsumræðunni og skrítnum birtingarmyndum. Það er ekki ofsögum sagt að fjölmiðlar og samfélagsmiðlar hafi verið uppfullir síðustu daga af umfjöllun um læknisfræðilega ónauðsynleg, óafturkræf inngrip í líkama barna með oft verulega neikvæðum afleiðingum. En réttindi og velferð intersex barna voru þar ekki í forgrunni, heldur nýlegt frumvarp sem er til umræðu á Alþingi og varðar bann við umskurði drengja að viðlögðum fangelsisdómi til allt að sex ára.

Frumvarpið er mjög umdeilt eins og flestir hafa líklega orðið varir við. En yfirlýstir stuðningsmenn eru líka fjölmargir, m.a. úr röðum lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Er til of mikils ætlast að fara fram á sama áhuga og umhyggju fyrir velferð intersex barna? Við þurfum að festa vernd þessa hóps í lög sem fyrst.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×