Skoðun

Fyrir hvern vinnum við?

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson skrifar
Á eftirstríðsárunum fóru konur út á vinnumarkaðinn í stórum stíl. Konur áttu heimtingu á því að vinna launavinnu, rétt eins og karlar, bæði til þess að öðlast fjárhagslegt sjálfstæði, vera ekki upp á karlana komnar, en ekki síður til þess að eiga möguleika á því að rækta sjálfa sig í hinu opinbera rými, en vera ekki bundin heimilinu eins og fram að því hafði tíðkast.

Áður var oftast aðeins ein fyrirvinna á heimilinu en nú voru þær oft orðnar tvær! Þvílík lukka, nú hlytu allir að hafa það gott: Tveir vinna, jú, meira en einn. Samfélagið framleiddi meira, og allir fá borgað og allt verður betra!

En eins og við vitum þá hvarf ekki öll ólaunaða vinnan sem konur höfðu til þessa sinnt á heimilinum. Konur héldu áfram að sinna ólaunuðum heimilisstörfum samhliða launavinnu, því þó konur ynnu nú úti á vinnumarkaði við hlið karla er ekki eins og þeir hafi tekið sér stöðu til jafns við konur inni á heimilum. Þannig varð úr samfélag þar sem allir eru útivinnandi, en hin klassísku heimilisverk bíða okkar (og sérstaklega kvennanna) þegar við komum heim eða þeim hefur verið úthýst á hinar ýmsu stofnanir, eins og leikskóla og öldrunarheimili (þar sem vinna fyrst og fremst konur).

Að gefa of mikið

Í tvö ár fékk ég einmitt að reyna að vinna á einum svona kvennavinnustað þegar ég starfaði sem leiðbeinandi á leikskóla í Reykjavík. Þó ég minnist barnanna og starfsfólksins með mikilli hlýju þá get ég ekki sagt að lífið þessi tvö ár hafi verið auðvelt. Vinnan var erfið og lýjandi. Sú reynsla gerði mér enn ljósara hversu mikilvægt það er að stytta vinnudaginn og færa samfélagið allt á fjölskylduvænni brautir.

Stöðug mannekla vegna veikinda starfsmanna og mikil starfsmannavelta gerðu þetta krefjandi starf enn erfiðara. Stöðug truflun var á reglubundnu starfi og fámennið varð til þess að við neyddumst ítrekað til þess að vinna með allt of stóra hópa.

En ofan á það þá fylltist ég mikilli sorg þegar ég – mér til mikils hryllings – gerði mér grein fyrir því að ég gaf svo mikið af mér til barnanna á leikskólanum að ég hafði ekki orku eftir handa mínum eigin. Að þolinmæðin sem fór í að bregðast á útreiknaðan og vel stilltan hátt við hegðun barna með hegðunarvanda var að engu orðin þegar ég kom heim, því þá þurfti ég helst af öllu að fá að slappa aðeins af.

Er hægt að hugsa sér meira öskrandi dæmi um að hér sé ekki allt með felldu en það að einkareknir leikskólar séu farnir að sjá það sem hlut sinn að bjóða foreldrum að panta kvöldmatinn frá leikskólanum? Eða að sjá um þvottinn? Eða hér spretti upp fyrirtæki, þó sannarlega ágæt séu, sem þjónusta fólk sem er svo aðframkomið af vinnuálagi að það getur ekki einu sinni látið sér detta í hug hvað á að hafa í matinn?



Vinnum fyrir okkur sjálf

Stytting vinnuvikunnar hefur svo ótal marga fleti, sem mörgum hverjum verður ekki gerð almennileg skil með því að vísa í hagtölur. Jú, styttingin mun að öllum líkindum auka framleiðni. En hún styður líka við vellíðan í starfi. Hún er lýðheilsumál, þar sem hún minnkar streitu og veikindi. Hún tekur á alltof löngum vinnudögum barnanna sjálfra, sem eru oft á tíðum í 8-9 tíma vistun.

Hún er menntamál, því, eins og Ólafur Páll Jónsson bendir á í nýlegum pistli, þá sárvantar foreldra tíma til að styðja við menntun barnanna sinna. Hún er jafnréttismál. Og hún er lýðræðismál, því hún gefur okkur meiri tíma til þess að vera upplýst og taka þátt í félagsstarfi. En ekki síst felst í henni afstaða til samfélagsins sjálfs, að í því séu falin mikil lífsgæði, jafnvel nauðsynleg, að hafa nægan frítíma til þess að geta sinnt heimili og börnum, að samvera og sjálfsrækt séu alger grundvallaratriði í heilbrigðu samfélagi. Stundum þurfum við hreinlega að geta unnið fyrir okkur sjálf.



Höfundur situr fyrir hönd Vinstri grænna í stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og býður sig fram í 2.-4. sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík sem fer fram þann 24. febrúar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×