Skoðun

Lýðskrumari leiðréttur

Líf Magneudóttir skrifar
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórnarkosningunum, brást ókvæða við þeirri ábendingu minni að eitt helsta kosningaloforð flokksins í vor sé óframkvæmanlegt. Loforð Eyþórs um að fella niður alla fasteignaskatta á eldri borgara stangast á við sveitastjórnarlög eins og ráðuneyti sveitastjórnarmála hefur þegar úrskurðað um.

Það er beinlínis ólöglegt að fella niður fasteignagjöld við ákveðinn aldur. Það er hvorki þrætubók né lagatækni eins og Eyþór virðist halda. Það er bláköld staðreynd.

Tekjulágir eldri borgarar njóta afsláttar

Önnur staðreynd málsins er sú að eldra fólk í Reykjavík nýtur nú þegar afslátta af fasteignasköttum sem taka mið af tekjum þess. Í árslok 2017 samþykkti borgarráð að auka þá afslætti sem tekjulægri eldra fólk og öryrkjar njóta af fasteignagjöldum og fráveitugjöldum.

Í dag er það þannig að einstaklingur með tekjur allt að 3.910.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 5.450.000 krónur fá fasteignaskatta fellda niður að fullu, 100%. Þeir sem eru með tekjur á bilinu 3.910.000 til 4.480.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 5.450.000 til 6.060.000 krónur fá 80% afslátt og loks fá einstaklingar með tekjur á bilinu 4.480.000 til 5.210.000 krónur og samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.060.000 til 7.240.000 krónur, 50% afslátt.



Óréttlát aðgerð sem eykur ójöfnuð

Tekjutenging fasteignaskatts og fráveitugjalda er bæði réttlát og skynsöm. Ég er í stjórnmálum til að jafna kjör fólks og búa þannig um hnútana að við höfum öll jöfn tækifæri. Flöt niðurfelling á afmarkaðan aldurshóp er ekki til þess fallin að ná þeim markmiðum.

Flöt niðurfelling fasteignagjalda á alla eldri borgara mun fyrst og fremst nýtast þeim tekjuhæstu. Ekki má gleyma því að þó margt eldra fólk búi við mjög kröpp kjör og jafnvel í sárri fátækt þá er annað eldra fólk með háar tekjur og miklar eignir. Tekjuhæsta tíund eldri borgara, sem er með yfir milljón í mánaðartekjur, fær þannig samkvæmt kosningaloforði Eyþórs 115.761 króna afslátt á ári.



Beitum gjaldskrám til að bæta kjör

Við Vinstri græn höfum talað fyrir því að tekjumörk þessara afslátta séu hærri, þannig að þeir nýtist betur þeim sem raunverulega búa við kröpp kjör þrátt fyrir að eiga eigið húsnæði. Það er sjálfsagt réttlætismál að borgin komi til móts við það fólk.

Það er ekki aðeins margt eldra fólk sem býr við kröpp kjör. Fátækt er raunverulegt vandamál og fjölmargar barnafjölskyldur berjast í bökkum við að ná endum saman. Við Vinstri græn viljum endurskoða gjaldskrár með það fyrir augum að lækka álögur tekjulágra hópa og barnafjölskyldna.  

Við eigum að hafa kjark til að búa til réttláta borg og jafna kjör fólks svo við getum öll notið lífsins áhyggjulaus, óháð aldri. Það er stefna jöfnuðar og velferðar og það er stefna okkar Vinstri grænna.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×