Skoðun

Kvíðinn og bjargirnar í Garðabæ

Sara Dögg Svanhildardóttir skrifar
Ég rakst á grein um daginn þar sem spjótum var beint að kvíða barna og ungmenna. Í greininni er áréttað mikilvægi þess að leik- og grunnskólar hlúi vel að börnum og ungmennum og ekki síður að sveitarfélög tryggi íbúum sínum leikskóladvöl frá 12 mánaða aldri til að styða við lífsgæði ungra foreldra. Þessu er ég hjartanlega sammála. Leikskóladvöl er ekki síður mikið jafnréttistæki og tryggir jafna þátttöku foreldranna á vinnumarkaði.

En það var annað sem ég hjó sérstaklega eftir og vakti furðu mína í þessari grein bæjarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins. Þar er eitt ráðið til að fást við kvíða og depurð sagt vera tenging við náttúruna. Vissulega er umhverfi Garðabæjar ríkt af náttúrufegurð og paradís líkast. Í slíkt umhverfi má sækja andlega vellíðan og innri ró. Því miður dugar slíkt þó ekki til þegar vandinn er sjúklegur kvíði og depurð. Náttúrufegurð fær ekki læknað slíkt, heldur þarf fagþekkingu til. Við sem stöndum að Garðabæjarlistanum viljum tryggja að fagmennskan ráði viðbrögðum við kvíða barna og ungmenna.

Velferðarþjónustan, sem íbúar eiga rétt á, skiptir nefnilega gríðarlega miklu máli. Því fyrr sem gripið er inn í því betur reynist slík þjónusta. Mikilvægust er hún fyrir leik- og grunnskóla þar sem vandinn uppgötvast oftast. Þar verður að leggja áherslu á stuðning, sértæk úrræði, meðferð og almenna aðkomu fagfólks.

Við viljum sjá Garðabæ vaxa sem þjónustumiðað sveitarfélag, sem tryggir öllum aðgang og vel ígrundaða þjónustu. Ekki síst í svo alvarlegum málum sem kvíða og depurð, hvort heldur er hjá börnum og ungmennum eða foreldrum þeirra.

Náttúruna skulum svo sannarlega nýta til útivistar og vellíðunar, á þeim fallegu útivistarsvæðum sem umlykja Garðabæ. Þau svæði geta nýst bæjarbúum enn betur þegar við förum að vinna sem heilsueflandi samfélag fyrir alla íbúa.

Fagmennskuna upp á borð og tökum betur utan um íbúa í Garðabæ, verum öðrum sveitarfélögum til eftirbreytni. Það vil ég og við sem stöndum að Garðabæjarlistanum. Við viljum breyta til betri vegar þannig að við getum sagt hátt og skýrt, stolt og keik: Garðabær er fyrir alla.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.

 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×