Skoðun

Snjallsímablinda

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Við eigum öll ósvífni í skúmaskoti sálarinnar. Eitt af því sem ég skemmti mér yfir á netinu eru upptökur þar sem fólk gengur með snjallsímana sína og sendir sms endalaust gangandi ýmist ofan í gosbrunna eða á staura. Og það er svo auðséð að þetta er falin myndavél. Ástæða gleði minnar er sú að mér finnst svo erfitt að sjá fólk út um allt í endalausum samskiptum við þetta tæki.

Einhver myndi segja að það bæri vott um það að ég sé miðaldra kelling. Já, og? Það hefur nánast orðið að trúarbrögðum hjá mér að nota bara spjallsíma en alls ekki snjallsíma. Það getur verið vegna þess að ég óttast að verða forfallin eins og fólkið í myndböndunum. Það gerist æði oft að maður mætir fólki sem er að pikka á símann sinn og víkur ekki úr vegi og ég fer alltaf í gegnum það í huganum að víkja ekki og lenda frekar í samstuði við manneskjuna, en veit að það er of gremjuleg aðferð því að ég er hvorki staur né gosbrunnur.

Um daginn á leiðinni í vinnu dansaði bíll á veginum fyrir framan mig og ég gaf mér að ökumaðurinn væri í svipuðu ástandi og Edda Björgvins lék í áramótaskaupinu ’84 þegar Laddi í hlutverki lögreglumanns gerði tilraun til að stöðva hana. Og þegar bíllinn nam staðar á rauðu ljósi stökk ég út og opnaði dyrnar hjá ökumanni sem reyndist ekki drukkin frú í pels heldur ung stúlka sem var í þann mund að ljúka við sín gríðarmikilvægu skilaboð. Stúlkan horfði á mig skelfingaraugum en ég sagði við hana: „Ó ég hélt að þú værir drukkin en ég sé að þú ert að pikka á símann þinn!“ Ég hitti einn afa um daginn sem hefur þann sið að biðja afkomendur sína að geyma snjallsímana í körfu frammi í forstofu svo að hægt sé að halda uppi eðlilegum samskiptum á meðan fjölskyldan kemur saman. Það er snilldarhugmynd.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×