Skoðun

Mannvonskan og vanhæfnin

Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Bandaríski þingmaðurinn Elisabeth Warren fór nýlega og skoðaði með eigin augum þær martraðarkenndu búðir sem Trumpstjórnin í Bandaríkjunum hefur búið nauðleitarfólki í Bandaríkjunum. Lýsingarnar eru ægilegar. Fólk hefst við í daunillum vistarverum, er hreinlega hneppt í fangelsi. Og hefur það til saka unnið að trúa á ameríska drauminn. Börn eru höfð í búrum. Þau hafa verið rifin frá fjölskyldum sínum – mæðrum sínum, feðrum og systkinum ­– án þess að víst sé að fjölskyldurnar nái að sameinast á ný í þeim glundroða sem þar ríkir, nema ef til vill hugsanlega ef fólk gefur upp á bátinn öll borgaraleg réttindi. Í störfum Trumpstjórnarinnar fylgjast ófrávíkjanlega að mannvonskan og vanhæfnin.

Jarðarbúar standa frammi fyrir ógurlegum vanda, meiri en nokkru sinni í minni mannkyns. Loftlagsbreytingar af manna völdum leiða til þess að lönd verða óbyggileg sökum þurrka og flóða. Milljónir manna fara á vergang. Tekist verður á um aðgang að einföldum gæðum sem við hér álítum sjálfsögð á borð við vatn, húsaskjól og hreint loft í meiri mæli en við höfum áður séð. Því verri sem lofslagsvandinn verður þeim mun ægilegri verður flóttamannavandinn. Ætlum við að nota aðferðir Donalds Trump til að takast á við þann vanda? Loka öllu, vígbúast, sundra fjölskyldum, loka okkur af og loka þau inni? Það mun þýða allsherjar vargöld og stríð um alla Jörð. Ætlum við að nota aðferðir Donalds Trump við að takast á við loftslagsvandann? Loka eyrunum og augunum? Það mun fyrr en varir leiða til endaloka lífs á Jörðunni í núverandi mynd.

Eina færa leiðin til að takast á við þau risavöxnu úrlausnarefni sem mannkynið stendur frammi fyrir er samvinna þjóðanna, samtak alls mannkyns, með frelsi og hugvit að leiðarljósi, opinn huga og opinn faðm – og kærleika.

Þar er eina vonin sem við eigum. Mannvonskunni og vanhæfninni fylgir nefnilega líka vonleysið.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×