Skoðun

Lesum í allt sumar

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Mikilvægi lesturs og lesskilnings er ótvírætt. Við höfum lagt á það ríka áherslu síðustu ár að bæta læsi, ekki síst hjá börnunum okkar. Sumarið er tími samverunnar, útivistar og leikja en það er mikilvægt að minna á lesturinn líka. Það er staðreynd að ef barn les ekkert yfir sumartímann getur orðið allt að þriggja mánaða afturför á lestrarfærni þess í sumarfríinu. Góðu fréttirnar eru þó að það þarf ekki mikið til að börn viðhaldi færninni eða taki jafnvel framförum. Rannsóknir sýna að til þess að koma í veg fyrir þessa afturför dugar að lesa aðeins 4-5 bækur yfir sumarið eða lesa að jafnaði tvisvar til þrisvar í viku í um það bil 15 mínútur í senn.

Foreldrarnir besta fyrirmyndin

Sem hvatningu fyrir lesendur á grunnskólaaldri höfum við skipulagt sumarlestrarleik með góðri hjálp, meðal annars frá íslenska karlalandsliðinu í fótbolta og Menntamálastofnun. Það er framhald Söguboltans, samstarfsverkefnis mennta- og menningarmálaráðuneytis, barnabókahöfunda og RÚV sem skipulagt var í tengslum við þátttöku landsliðsins í heimsmeistaramótinu í júní en þar tvinnum við saman tvær ástríður landsmanna, fótbolta og bókmenntir. Söguboltaþættina má finna á vef KrakkaRÚV og lestrarleikurinn fór í loftið um helgina. Hann er einfaldur og til þess gerður að hvetja krakka til þess að lesa, á alla vegu og í allt sumar.

Gleymum því ekki að bestu fyrirmyndir barnanna þegar kemur að lestri eru foreldarnir. Það er vænlegra til árangurs ef fleiri taka sér bók í hönd á heimilinu en börnin. Sem fyrr læra þau það sem fyrir þeim er haft og þess vegna þurfum við öll að muna eftir því að lesa líka. Setjum lesturinn á dagskrá í sumar, leggjum frá okkur snjalltækin og finnum okkur tíma í sól eða regni til þess að njóta góðra bóka. Það eru kannski ekki verðlaun í boði fyrir okkur fullorðna fólkið önnur en lestraránægjan – en hún er líka heilmikils virði.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×